INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri Reykjavíkur segist afar ósátt við að lögreglumönnum í Reykjavík fækki um allt að 25 eins og nú er útlit fyrir.

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri Reykjavíkur segist afar ósátt við að lögreglumönnum í Reykjavík fækki um allt að 25 eins og nú er útlit fyrir. "Það segir sig auðvitað sjálft að þegar verið er að fækka mönnum í starfi þá er auðvitað ekki hægt að halda úti sömu þjónustu og ella hefði verið hægt."

Borgarstjóri kveðst gera sér fyllilega grein fyrir því að ríkissjóður verði að gæta aðhalds í rekstri. Það verði hins vegar að hugleiða hvar eigi að spara og þetta sé ekki rétti málaflokkurinn til þess.

"Ég tel að lögreglan hafi verið vanhaldin og löggæslan hafi ekki verið nógu öflug og sýnileg í Reykjavík." Löngu tímabært er að efla lögregluna, að hennar sögn.

Um þau orð Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra að viðbótarmannskapur verði kallaður út á álagstímum, segir Ingibjörg að það sé eins og hvert annað yfirklór. Hún minnir á að málið snúist ekki eingöngu um löggæslu í miðbænum um helgar. Grenndarlöggæslan sé t.d. mjög vanbúin. "Og umferðarlögreglan er, eins og borgarbúar vita, ekki mjög sýnileg á götum borgarinnar. Þetta er því á ýmsum sviðum og því verður ekki bjargað með því að kalla út menn á álagstímum," segir borgarstjóri.

Sem betur fer finni flestir borgarbúar ekki mikið fyrir skertri þjónustu lögreglunnar nema eitthvað komi upp á. "Svo verðum við bara að vona að það gerist ekki."

Í þrígang rætt við dómsmálaráðherra

Ingibjörg Sólrún segist ekki hafa rætt þá stöðu sem uppi er núna hjá lögreglunni í Reykjavík. "Ég ræddi við dómsmálaráðherra í sumar og þá gerði ég ráðherra grein fyrir því að það væri óánægja meðal borgarbúa hvað varðaði löggæsluna, hún væri hvorki nógu öflug né nógu sýnileg. Ég taldi að ekki mætti mikið út af bregða." Þá kvaðst hún hafa farið á fund dómsmálaráðherra með bæjarstjórum Mosfellsbæjar og Seltjarnarness og líka eftir að Sólveig Pétursdóttir tók við embætti árið 1999. "Í þrígang hefur henni verið gerð grein fyrir þeirri skoðun að það þurfi að efla löggæsluna en ekki skera hana niður. Ég tel að ég væri að bregðast skyldum mínum við borgarbúa ef ég léti þessa skoðun mína ekki í ljós."

Hún minnir jafnframt á að samkvæmt ársskýrslu lögreglunnar í Reykjavík fyrir árið 2000 kemur fram að í fyrra voru 439 borgarbúar á bak við hvern lögreglumann en þeir voru 353 árið 1978. "Þetta segir manni að það hefur orðið samdráttur í þjónustunni á þessu tímabili."

Ingibjörg Sólrún segist hafa styrkst í þeirri skoðun að Reykjavík eigi að taka að sér hina staðbundnu löggæslu í borginni. "Það byggist á því að þá getum við stjórnað því betur hvernig þörfum fyrir þessa þjónustu er mætt og haft meiri áhrif á það og borið á því ábyrgð. En mér finnst við vera afskaplega áhrifalaus um þetta í dag."