Fólk getur sýnt ofnæmisviðbrögð setjist kattareigandi við hlið þess.
Fólk getur sýnt ofnæmisviðbrögð setjist kattareigandi við hlið þess.
TÍÐNI ofnæmis hefur aukist jafnt og þétt í heiminum síðustu áratugi, að sögn Michaels Clausen, sérfræðings á barnadeild Landspítala í Fossvogi.

TÍÐNI ofnæmis hefur aukist jafnt og þétt í heiminum síðustu áratugi, að sögn Michaels Clausen, sérfræðings á barnadeild Landspítala í Fossvogi. Ofnæmisviðbrögð geta lýst sér sem kláði í augum og nefi, aukin táramyndun, nefstífla eða óþægindi í neðri öndunarvegi.

Skólayfirvöld í Borgaskóla hafa sent foreldrum nemenda bréf og beðið þá um að senda börn sín ekki með kiwiávexti í skólann. Ástæðan er sú að einn nemandi er að sögn með svo heiftarlegt ofnæmi fyrir kiwi að foreldrar hans báðu skólayfirvöld að hlutast til um að samnemendur hans tækju ekki kiwi með sér í nesti.

Að sögn Hilmars Hilmarssonar, skólastjóra í Borgaskóla, er þetta annar veturinn sem viðkomandi nemandi er í skólanum. Þar, sem hann var áður í skóla, hafi þessi háttur verið hafður á og slíkt bréf til foreldra hafi einnig verið sent út í fyrra í Borgaskóla.

Hann segir að 2-3 börn í skólanum séu með svo alvarlegt ofnæmi að hafa verði tiltækar sprautur með viðeigandi lyfjum til að gefa þeim ef þau fá kast. Til stendur að opna mötuneyti í Borgaskóla, þar sem 6-9 ára gömlum börnum verður gefinn heitur matur að borða í hádeginu, í samræmi við stefnu fræðsluráðs, en einnig eldri bekkingum þegar þeir eru lengi dags í skólanum.

Hilmar segir að foreldrar hafi haft samband við sig og spurt hvort börnin þeirra gætu ekki fengið sérstakan mat þar sem þau væru með ofnæmi fyrir hinni eða þessari fæðutegundinni. Að sögn hans verða gerðar ráðstafanir í mötuneytinu til að koma til móts við börn með ofnæmi.

Michael Clausen segir algengi ofnæmis hafa vaxið jafnt og þétt á Vesturlöndum síðan 1960. Hann segist annast sjúklinga, sem þjáist af mjög miklu fæðuofnæmi, sérstaklega fyrir mjólk, eggjum, fiski og hnetum. Það sé í raun eggjahvítuefni í viðkomandi fæðu sem fólk hafi ofnæmi fyrir.

Michael segir að merkja megi skýra aukningu í ofnæmissjúkdómum meðal barna um allan heim. "Það er aukning í bæði asma-, exem- og frjókornaofnæmi. Það hefur verið erfiðara að meta þetta með fæðuofnæmið; menn telja að það sé aukning þar líka."

Hann hefur rannsakað algengi ofnæmis hér á landi og niðurstöðurnar eru að t.d. asmi sé algengari meðal barna en fullorðinna. Hann heldur að það geti verið að tíðnin sé að aukast svona mikið og þegar börn dagsins í dag verði fullorðin, þá verði tíðnin meðal fullorðinna mun hærri en nú.

Hreinlætiskenningin

Michael segir að fjölmargar kenningar hafi verið settar fram um ástæðuna fyrir aukningu ofnæmis í heiminum en það sé ekki vitað með vissu. Hin mikla aukning ofnæmistilfella hafi byrjað upp úr 1960, sérstaklega í vestrænum löndum en alls ekki í Austur-Evrópu.

"Og það hefur verið taktföst aukning. En síðan þegar "tjaldið" fellur - austantjaldið svokallaða -, þá kemur í ljós að tíðnin í austantjaldslöndunum er mun minni en hjá okkur vestanmegin og hún er sambærileg því sem hún var um 1960. Og þá fara menn að velta fyrir sér, hver er munurinn á þessum tveimur heimshlutum. Það er nú bara tjaldið, þannig að landfræðilegur munur er enginn en aftur á móti lífsstílsmunurinn geysilegur. Þeir lifðu eins og við fyrir 1960, þeir eru 30-40 árum á eftir okkur. Þannig að menn hafa mikið beint augum sínum að lífsstílnum."

Michael segir að litið sé til margra þátta í vestrænum lífsstíl sem mögulegrar orsakar aukins ofnæmis, til að mynda mataræðis en ekki síst hreinlætis. Ein kenning, sem kölluð hefur verið hreinlætiskenningin, byggist á þeirri staðreynd að hreinlæti hefur aukist mjög mikið á þessum tíma og áreiti baktería hefur verið minnkað til mikilli muna, t.d. við matargerð og í fæðingum, og bólusetningar gera það að verkum að sýkingar eru fátíðari en áður. Nú óttast menn að þetta hafi haft neikvæð áhrif á ónæmiskerfi fólks og gert það viðkvæmara og líklegra til að þróa með sér ofnæmi. "Því við vitum að bakteríurnar hafa jákvæð áhrif á ónæmiskerfið. Þær stilla það af hjá nýfædda barninu og fyrstu mánuðina á þann hátt að það myndar frekar þol heldur en ofnæmi. Þannig hafa menn velt þessu fyrir sér að það gæti verið en þetta er ein kenning af mörgum. Það er margt annað sem menn velta fyrir sér."

Michael tekur þátt í alþjóðlegri rannsókn (ISAC, International Study of Asthma and Allergy in Childhood), sem miðast að því að reyna að sanna það, hvar orsakirnar liggja. Rannsakaðir eru stórir nákvæmlega eins hópar í hverju þeirra 56 landa, sem taka þátt í rannsókninni. Hún er í þremur hlutum og var hálf milljón barna rannsökuð í fyrsta hluta hennar. Michael segist vera búinn með tvo hluta rannsóknarinnar og vonast til að geta klárað þriðja þáttinn um næstu áramót.

Erfitt að meta fæðuofnæmi

Michael segir að verið sé að vinna úr þeim niðurstöðum rannsóknarinnar, sem komnar eru, og fyrir liggi að algengi asma hjá 10-11 ára börnum á Íslandi sé 9%, sem er mjög hátt hlutfall, miðað við 5% algengi hjá fullorðnum. Hann segir aftur á móti engar niðurstöður liggja fyrir varðandi algengi fæðuofnæmis, sem sé mjög erfitt að meta. "Þegar gerðar eru rannsóknir á fæðuofnæmi eru miklu fleiri sem telja sig hafa fæðuofnæmi en sem raunverulega hafa það. Til dæmis í Bretlandi var gerð stór könnun þar sem 28% töldu sig hafa fæðuofnæmi. Og þegar búið var að gera tvíblinda rannsókn, þá sat maður eftir með 2%." Margir telja sig hafa ofnæmi fyrir mat ef þeir verða fyrir óþægindum af neyslu ákveðins matar. Óþægindin eigi sér hins vegar oft aðrar orsakir. Michael bendir á að ýmislegt geri mat á fæðuofnæmi vandasamt, t.d. ótti.

Michael segir að kiwi sé mestur ofnæmisvaki af ávöxtum en yfirleitt þurfi að borða eða snerta hann. Það sé því mjög óvenjulegt að sýna svo sterk ofnæmiseinkenni við návist hans eins og tilfellið virðist vera hjá nemendanum í Borgaskóla. Það beri hins vegar að taka slíka lýsingu foreldra alvarlega og virða hana.