Safnaðarstarf Fríkirkjunnar í Reykjavík SAFNAÐARSTARF Fríkirkjunnar í Reykjavík mun halda í sína árlegu safnaðarferð sunnudaginn 2. september. Ferðin hefst sunnudagsmorguninn kl.

Safnaðarstarf Fríkirkjunnar í Reykjavík

SAFNAÐARSTARF Fríkirkjunnar í Reykjavík mun halda í sína árlegu safnaðarferð sunnudaginn 2. september. Ferðin hefst sunnudagsmorguninn kl. 11 með stuttri fjölskylduguðsþjónustu í Fríkirkjunni við Tjörnina þar sem barnastarf vetrarins hefst og dagsferðin er lögð í Guðs hendur. Síðan verður haldið suður á bóginn þar sem merkar kirkjur Suðurnesjamanna verða heimsóttar og skoðaðar. Bláa lónið heimsótt þar sem fólk getur fengið sér kaffisopa eða skellt sér í lónið. Stefnt er að því að hópurinn snæði saman léttan málsverð í ferðinni.

Þeir sem óska eftir frekari upplýsingum og ætla að taka þátt í þessari ferð eru vinsamlegast beðnir að skrá sig í síma safnaðarheimilisins, 552-7270.

Barnamessur

Barnamessurnar eru á sunnudögum kl. 11. Verða þær því samtímis almennu guðsþjónustunni alla sunnudaga. Er það von okkar að margar fjölskyldur noti tækifæri sem þannig gefst til að byrja hvíldardaginn með því að fara saman til kirkju. Með slíkri kirkjugöngu getum við eignast dýrmætar stundir með börnunum okkar um leið og við bendum þeim á traustan grundvöll að byggja líf sitt á. Barnastarfið fer þannig fram að allir byrja saman í kirkjunni, og þegar að predikun kemur fara börnin ásamt leiðtoga sínum í forkirkjuna eða upp í safnaðaheimili kirkjunnar. Eftir messuna förum við öll saman og gefum öndunum brauð.

Almennar guðsþjónustur

Almennar guðsþjónustur safnaðarins eru á sunnudögum klukkan 11. Í guðsþjónustunum er lögð rík áhersla á fallega og góða tónlist. Einsöngvarar í guðsþjónustunum eru úr kór kirkjunnar. Með þessari tímasetningu viljum við gefa fjölskyldunum tækifæri á að sækja saman messu, en ekki börn og fullorðnir í sitt hvoru lagi.

Foreldramorgnar

Foreldramorgnar verða fyrst um sinn einu sinni í mánuði fram að jólum.

Foreldramorgnarnir verða á þriðjudagsmorgnum frá klukkan 10 til 11.30. Þar koma foreldrar saman með börn sín í safnaðarheimilinu. Þar er setið og spjallað yfir kökum og öðru góðgæti og tekið þátt í helgistund.

Starf aldraðra

Einn liður safnaðarstarfs er starf meðal aldraðra. Í vetur munum við gera tilraun með samverustundir fyrir aldraða í söfnuðinum. Slíkar stundir verða á þriðjudögum frá klukkan 13.30-16. Nokkuð hefur verið um það að hinir eldri í söfnuðinum hafa spurt um þetta starf og því viljum við hvetja hina yngri til að liðsinna foreldrum, öfum og ömmum til að taka fyrstu sporin. Það þarf oft ekki nema lítið til að vekja áhugann.

Fermingarstarf - æskulýðsstarf

Í Fríkirkjunni er fermingarstarfið samtengt æskulýðsstarfi safnaðarins, þar fá unglingar fá fræðslu ásamt því að njóta þess að eiga samfélag saman.

Kvenfélag og bræðrafélag

Við Fríkirkjuna eru starfandi kvenfélag og bræðrafélag. Þessi félög eru góður vettvangur fyrir safnaðarfólk til að eiga samfélag saman og efla starfið innan kirkjunnar sinnar. Við viljum hvetja allt safnaðarfólk til að skoða þessi félög. Allar nánari upplýsingar um fundartíma o.fl. er hægt að nálgast á skrifstofu safnaðarins.

Kóra- og tónlistarstarf

Næstu ár verður sérstök áhersla lögð á að byggja upp öflugt kóra- og tónlistarstarf innan Fríkirkjunnar. Þar er pláss fyrir alla þá sem áhuga hafa á kórsöng. Nánari upplýsingar um þennan lið safnaðarstarfsins er hægt að fá á skrifstofu safnaðarins.

Söfnuður í örum vexti!

Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík er yfir 100 ára og er annar elsti lúterski söfnuðurinn í Reykjavík Á fyrri hluta síðustu aldar tilheyrði hátt í helmingur íbúa Reykjavíkur Fríkirkjusöfnuðinum.

Hann er óháður ríki og landfræðilegum sóknarmörkum en játar sömu trú og þjóðkirkjan. Hátt í 5.600 manns tilheyra nú söfnuðinum. Yfir 500 manns hafa gerst meðlimir undanfarin þrjú ár.

Ókeypis þjónusta

Kirkjulegar athafnir svo sem skírnir, fermingar og brúðkaup í kirkju eru fríkirkjufólki að kostnaðarlausu.

Fermingarskóli

Fermingarfræðslan og fermingin er fríkirkjufólki að kostnaðarlausu. Boðið er upp á samanþjappaða kennslu sem merkir minna rask yfir vetrarmánuði / val á fermingardegi / fermingarferðalag og öflugt barna- og æskulýðsstarf.

Prestur Fríkirkjusafnaðarins er sr. Hjörtur Magni Jóhannsson.

Foreldramorgnar í Bessastaðasókn

Bessastaðasókn hefur ákveðið að fara af stað með samverustundir með foreldrum ungra barna ,,Mömmumorgna" á Álftanesi í vetur. Þessar samverur verða á miðvikudagsmorgnum kl 10-12 f.h. í Haukshúsum.

Þar verður aðaláherslan lögð á að hittast, skiptast á skoðunum og eiga góða stund saman. Stundirnar eru ætlaðar heimavinnandi foreldrum, eða þá foreldrum sem eru búnir að senda börnin í skóla/leikskóla og langar að hitta aðra og fá félagsskap. Fengnir verða fyrirlesarar einu sinni í mánuði og barnastund verður í lok hverrar samveru. Heitt kaffi á könnunni og djús og kex fyrir börnin.

Við byrjum næsta miðvikudag, 5. september. kl. 10.

Allar aðrar upplýsingar veitir Nanna Guðrún, djákni sóknarinnar.

Bessastaðasókn.

Haustsamvera eldri borgara í Háteigssöfnuði

Á MORGUN, sunnudag, býður Háteigssöfnuður eldri borgurum til haustsamveru. Samveran hefst að lokinni messu með léttri máltíð, kaffi og súkkulaðiköku á eftir. Að málsverði loknum tekur við skemmti- og fræðsludagskrá þar sem Þorvaldur Halldórsson sér um tónlistina og segir frá starfi sínu. Lesin verða haustljóð og stuttar frásagnir og sögur sem tengjast haustinu eftir ýmsa höfunda. Allir eru hjartanlega velkomnir. Messan hefst klukkan 11. Þetta er síðasta messan á sumartímanum kl. 11 í Háteigskirkju. Frá og með 9. september færast messurnar aftur á vetrartímann klukkan 14.

Vetrarstarf Íslensku Kristskirkjunnar

NÚ ER vetrarstarf Íslensku Kristskirkjunnar að byrja. Fyrsta fjölskyldu-guðsþjónustan á þessu hausti er á sunnudag kl.11. Þar verður söngur, dans og sjónhverfingamaður kemur í heimsókn með boðskap frá Guði. Einnig verður heilög kvöldmáltíð. Morgunguðsþjónustur kirkjunnar eru fræðslustundir fyrir börn og fullorðna. Börnunum er skipt í hópa eftir aldri og fá fræðslu við sitt hæfi á meðan fullorðinir fá sína fræðslu. Á sunnudögum kl. 20 eru almennar samkomur. Þar er mikil og lífleg lofgjörð, beðið fyrir bænarefnum, lifandi predikun og í lok samkomunnar er fólki boðið að fá fyrirbæn. Á mánudögum er unga fólkið með Biblíulestur kl.20 og 10. sept. hefst námskeiðið "Að sættast við sjálfan sig og fortíðina", sem er 13 vikna námskeið undir leiðsögn Ingunnar Björnsdóttur, ráðgjafa. Á þriðjudögum verður Alfa-námskeið, sem kirkjan er að halda í áttunda sinn, en það er 10 vikna námskeið, sem á upphaf sitt í Englandi og milljónir manna hafa nú sótt víða um heim. Þetta námskeið fjallar um ýmsar mikilvægar spurningar lífsins og tilvalið fyrir þá sem vilja rifja upp Biblíusögurnar og lífga upp á barnatrúna. Á miðvikudögum eru bænastundir kl. 6 fyrir þá sem vilja hittast áður en þeir fara til vinnu og biðja fyrir landi og þjóð. Einnig eru bænastundir á miðvikudögum kl. 17 þar sem beðið er fyrir innsendum bænarefnum. Unglingasamkomur er á föstudögum kl. 20.30 með fjölbreyttu og líflegu sniði. Einnig hittast 12 til 13 ára börn annan hvern föstudag og eiga samfélag saman. Síðustu helgina í sept. koma í heimsókn Maríusystur frá Darmstad í Þýskalandi, en þær eru mörgum kunnar hér á landi fyrir bækur sínar, t.d. "Dýrmætara en gull" og "Þegar Guð svarar". Fyrstu helgina í október verður árlegt mót kirkjunnar í Vatnaskógi, en þangað er von á Dan Siemens frá Minneappolis í Bandaríkjunum. Ýmislegt fleira verður á dagskrá þessa vetrar og allir velkomnir að taka þátt í starfi kirkjunnar, sem er lúthersk fríkirkja stofnuð 4. október 1997 og er til húsa á Bíldshöfða 10, 2. hæð.

Söfnuður kvaddur í Víðistaðakirkju

Næstkomandi sunnudag 2. september munu sr. Sigurður Helgi Guðmundsson sóknarprestur og kona hans Brynhildur Ósk Sigurðardóttir djákni kveðja söfnuð sinn í messu í Víðistaðakirkju. Messan hefst kl. 14.

Að lokinni messu mun söfnuðurinn halda þeim hjónum kveðjusamsæti í íþróttahúsi Víðistaðaskóla.

Sr. Sigurður Helgi Guðmundsson hefur þjónað sem sóknarprestur í Víðistaðasókn í aldarfjórðung. Víðistaðasókn var stofnuð 1976 og var sr. Sigurður þá kjörinn sóknarprestur. Hann mótaði starf safnaðarins af mikilli atorku og hafði m.a. frumkvæði að byggingu Víðistaðakirkju, sem var vígð í febrúar 1988. Sr. Sigurður hefur unnið að margvíslegum félagsmálum, m.a. öldrunarmálum. Eiginkona sr. Sigurðar, Brynhildur Ósk Sigurðardóttir, hefur starfað að málefnum sóknarinnar á mörgum sviðum. Fyrstu árin var hún formaður Systrafélags Víðistaðasóknar og hin síðari ár hefur hún starfað sem djákni við kirkjuna.

Ferming í Landakirkju

FERMT verður í Landakirkju við messu næsta sunnudag, 2. september, og hefst messan á óvenjulegum tíma, kl. 10.30. Fermdur verður Eyþór Björgvinsson, Dverghamri 1, en Eyþór og fjölskylda hans dvaldi í Noregi síðastliðinn vetur. Allir eru hjartanlega velkomnir til að fagna með fermingardrengnum og fjölskyldunni í samfélagi safnaðarins. Almenn altarisganga verður í messunni og eru allir hvattir til að ganga innar eins og ævinlega. Kaffisopi á eftir í Safnaðarheimilinu. Prestur verður sr. Kristján Björnsson.

Fermingarstarf hefst í Hafnar- fjarðarkirkju

NÆSTKOMANDI sunnudag hefst fermingarstarf Hafnarfjarðarkirkju með guðsþjónustu kl. 11.

Þangað er boðið sérstaklega öllum fermingarbörnum ársins og foreldrum þeirra til að eiga saman ljúfa stund í kirkjunni, biðja fyrir fermingarstarfinu og öllu því sem framundan er á komandi vetri. Við guðsþjónustuna þjóna allir prestar Hafnarfjarðarkirkju, en organisti er Natalía Chow. Eftir guðsþjónustuna er boðið upp á kaffisopa í safnaðarheimilinu. Þar verður fermingarbörnum afhent "Litla messubókin", en það er verkefnabók sem notuð er við guðsþjónustur vetrarins. Sjálf fermingarfræðslan hefst síðan á mánudag og þriðjudag samkvæmt stundatöflu. Prestar Hafnarfjarðarkirkju.

Safnaðarstarf

Lágafellskirkja. Mánudagur: Fjölskyldusamvera fyrir foreldra og börn þeirra frá kl. 13.30-15.30 í safnaðarheimilinu, Þverholti 3, 3. hæð.