Laugarneskirkja
Laugarneskirkja
NÚ um helgina fer safnaðarstarf Laugarneskirkju á fullan snúning og því langar okkur að gera stutta grein fyrir markmiðum okkar. Við eigum nú þegar tvö slagorð, sem segja nokkuð um stefnu safnaðarins.

NÚ um helgina fer safnaðarstarf Laugarneskirkju á fullan snúning og því langar okkur að gera stutta grein fyrir markmiðum okkar.

Við eigum nú þegar tvö slagorð, sem segja nokkuð um stefnu safnaðarins. Þau eru þessi: "Allir aldurs- og heilsufarshópar saman!" og "Gerum sóknarfólk að safnaðarfólki og safnaðarfólk myndugt!" En við söfnum ekki bara slagorðum heldur söfnum við líka trjágreinum. Kristur líkti sér og kirkju sinni við laufgað tré og við leyfum okkur að nota líkingu hans til að skilgreina starfið í Laugarneskirkju. Safnaðartréð okkar er alltaf að vaxa og þroskast. Greinar þess eru a.m.k. 5 að tölu og þar eru margir ávextir.

Bæn og íhugun

- Alla sunnudaga kl. 11 er messað í kirkjunni og er það miðpunktur safnaðarlífsins. Við leggjum mikið upp úr því að þá sé kirkjan aðgengileg öllu fólki, óháð aldri, heilsufari eða öðru. Því er sunnudagaskólinn starfræktur samhliða og að lokum sameinumst við öll til óformlegrar samveru í messukaffinu. - Kvöldmessur eru annan sunnudag í mánuði kl. 20.30. Þá dunar djassinn og kór og einsöngvarar leiða lofgjörðina.

- Hvert þriðjudagskvöld kl. 21 er "Þriðjudagur með Þorvaldi". Það er lofgjörðar- og bænastund þar sem gott er að koma og nærast hið innra.

- Kyrrðarstundir eru í hádegi alla fimmtudaga kl. 12-12.30. Léttur málsverður að stundinni lokinni.

- Annan hvern sunnudag eru messur í dagvistarsalnum í Hátúni 12.

- Morgunbænir eru alla virka morgna kl. 6.45-7.05.

Börn og unglingar

- Auk sunnudagaskólans eru Kirkjuprakkara-fundir fyrir 1.-4. bekk og TTT fyrir 5.-7. bekk. Umsjónarmenn í vetur verða Sigurbjörn Þorkelsson framkvæmdastjóri safnaðarins, Þorkell Sigurbjörnsson nemi og sr. Bjarni Karlsson sóknarprestur. - Fermingartímar og unglingakvöld Laugarneskirkju, Þróttheima og Blómavals eru fyrir 8. bekk á miðvikudögum. Auk sóknarprests munu guðfræðinemarnir Eygló Bjarnadóttir og Sólveig Halla Kristjánsdóttir kenna í fermingartímum en Margrét ÓLöf magnúsdóttur djáknanemi mun stýra unglingakvöldunum ásamt starfsfólki Þróttheima.

Félagsstörf

- Kvenfélagið er elsta og virðulegasta félag safnaðarins. Þar koma konur saman fyrsta mánudag í mánuði.

- Samverur eldri borgara eru annan hvern fimmtudag kl. 14 og hefjast 20. sept.

- Mömmumorgnar eru alla föstudaga kl. 10-12 í umsjá Eyglóar Bjarnadóttur meðhjálpara. Kaffispjall fyir mæður, góð upplifun fyrir börn.

- Gospelkvöldin í Hátúni 10 eru mánaðarleg skemmtikvöld og helgisamkomur í senn þar sem margt ber á góma í gríni og alvöru undir stjórn guðrúnar K. Þórsdóttur djákna, Þorvaldar Halldórssonar og Margrétar Scheving sálgæsluþjóns.

Fræðsla

- Fullorðinsfræðslan hefur göngu sína 4.9. og stendur öll þriðjudagskvöld. Þar kennir sóknarpresturinn sr. Bjarni Karlsson biblíufræðin á lifandi og auðskilinn hátt. Þátttaka er öllum heimil og gengið er inn um merktar dyr á austurgafli kirkjunnar.

- 12 spora hópar koma saman í kirkjunni öll mánudagskvöld kl. 20 og vinna með skaddaðar tilfinningar. Kynningarfundur verður haldinn mánudaginn 3. sept. á sama tíma. Umsjón og uppl.: Margrét Scheving sálgæsluþjónn.

Þjónusta

- Við kirkjuna starfar sérstakur þjónustuhópur um málefni aldraðra, lesarahópur sem annast upplestur við helgihald og fyrirbænahópur. Í þessa hópa vantar sífellt fleiri hendur. Auk þess starfar Kór Laugarneskirkju ötullega undir stjórn Gunnars Gunnarssonar.

Með mikilli gleði og áhuga bjóðum við allt fólk velkomið Laugarneskirkju. Nánari upplýsingar eru í síma 588 9422 og á síðu 650 í Textavarpinu.

Sóknarnefnd, prestur

og starfsfólk safnaðarins.