Vandræði með hugbúnað geta verið mjög kostnaðarsöm.
Vandræði með hugbúnað geta verið mjög kostnaðarsöm.
MIKILL munur er á verði á tölvuþjónustu fyrir einkaaðila þegar viðgerðarmaður er sendur í útkall í heimahús.

MIKILL munur er á verði á tölvuþjónustu fyrir einkaaðila þegar viðgerðarmaður er sendur í útkall í heimahús. Þegar verð var kannað fyrr í vikunni hjá þeim fyrirtækjum sem helst selja þjónustu til einstaklinga; Nýherja, EJS, Tæknivali og Heimaneti, reyndist verðið hæst í Nýherja, en þar kostar útkall með allt að tveggja tíma vinnu 16.638 krónur. Ódýrust reyndist þjónustan hjá nýju fyrirtæki, Heimaneti, þar sem klukkustundin kostar 4.900 krónur og tveggja tíma útkall því 9.800 krónur. Verðmunurinn fyrir tveggja tíma vinnu er því um 70%. Ef viðgerðin tekur innan við klukkustund er verðmunurinn mun meiri, lágmarksútkall hjá Nýherja er 2 klukkustundir en aðeins ein hjá Heimaneti. Því getur munað um 240% ef einungis er um stutt verkefni að ræða sem tekur innan við klukkustund að vinna.

Verð á tölvuaðstoð í gegnum síma er einnig mjög hátt. Hjá Tæknivali kostar aðstoðin 99,90 krónur hver mínúta, 99 krónur hjá Nýherja og 110 krónur hjá EJS en Heimanet býður ekki símaþjónustu. Þannig kostar aðstoð í 15 mínútur á bilinu 1.485 til 1.650 krónur eftir því hvert er hringt.

Áhersla Nýherja fremur á fyrirtæki

Jón Kristinn Jensson, deildarstjóri PC-sviðs hjá Nýherja, segir skýringarnar á þessum verðmun einkum vera áhersla fyrirtækisins á fyrirtæki fremur en einkatölvur. "Nýherji er stórt fyrirtæki sem kostar miklu til að mennta starfsfólkið á mjög sérhæfðum sviðum. Ef fólk vill kaupa þjónustuna á því verði sem við bjóðum er því það frjálst. Við seljum hana á því verði sem við teljum okkur þurfa að fá fyrir hana og fólki er í sjálfsvald sett hvort það kaupir þessa þjónustu.

Fyrirtækið einbeitir sér að því að veita fyrirtækjum viðgerðarþjónustu. Einstaklingar kaupa þjónustuna sjaldan og tekjur okkar af henni óverulegar. Þessi þjónusta er dýr og það er brýnt fyrir okkar tæknimönnum að láta vita af því strax í upphafi. Þeir sem kaupa af okkur þjónustu gera það einmitt vegna þess að við erum með gott, vel menntað starfsfólk, kaupandinn veit að hann getur treyst því."

Lítil yfirbygging lækkar verðið

Heimanet sérhæfir sig í þjónustu við almenna notendur að sögn Valgeirs Ólafssonar, eiganda Heimanets. "Við bjóðum ekki upp á símaþjónustu eða viðgerðarþjónustu á verkstæði heldur koma viðgerðarmenn okkar alltaf í heimahús. Það er lítil yfirbygging sem gerir okkur kleift að bjóða upp á mjög gott verð á þjónustunni."

Valgeir segir starfsfólk sitt vel menntað, hann er sjálfur fyrrum tæknistjóri hjá einu af stóru fyrirtækjunum í bransanum og margir af hans starfsmönnum eru menntaðir kerfisfræðingar. "Einstaklingar draga það oft mikið að fara með heimilistölvuna í viðgerð vegna þess að verðið er mjög hátt. Einnig mega sumir ekki missa tölvuna á verkstæði og vilja fá þjónustuna heim. Það er því full þörf fyrir þessa þjónustu á markaðnum."

Aðspurður hvernig verkefni fyrirtækið hefur fengið undanfarið segir Valgeir: "Verkefni Heimanets eru af öllum stærðum og gerðum. Við setjum upp nýjar tölvur eða hugbúnað í eldri tölvur, setjum upp netkerfi milli tölva, tengjum ADSL svo dæmi séu nefnd."