Grænmetismarkaðirnir verða starfræktir fram í miðjan september.
Grænmetismarkaðirnir verða starfræktir fram í miðjan september.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á þessum árstíma leggja margir leið sína á grænmetismarkaðina í Mosfellsdalnum og við Vesturlandsveg því þar fæst meðal annars ferskt íslenskt grænmeti, sósur og silungur.

"HÉR myndast oft skemmtileg stemmning, viss fastakúnnahópur mætir alltaf með körfur undir hendinni svo þetta er alveg eins og í útlöndum," segir Jón Jóhannsson, glerlistamaður, sem búsettur er í Frakklandi á veturna, en kemur til Íslands á sumrin til að starfrækja grænmetismarkaðinn á Mosskógum í Mosfellsdal, og anda að sér ferska loftinu eins og hann segir sjálfur. "Við nágrannarnir seljum það sem vex í görðunum hverju sinni og kemur hver með sína framleiðslu. Úr mínum garði seljum við meðal annars sex tegundir af salati, rófur blómkál og kryddjurtir og geta gestir jafnvel fengið að tína það sjálfir úr garðinum ef þeir vilja. Svo kemur Diddú alltaf með nýlagaðar ítalskar tómata- og pestósósur og Sveinbjörn Jóhannesson frá Heiðarbæ með nýveiddan silung úr Þingvallavatni." Markaðurinn hefur verið starfræktur í fjögur sumur og segir Jón hugmyndina hafa kviknað hjá nokkrum félögum sem fannst vanta slíkan markað í verslunarflóru Íslendinga. Hann er opinn á laugardögum frá klukkan 13-18 og verður starfræktur fram í miðjan september eða eins og veður leyfir. "Yfirleitt náum við sjö helgum á ári. Þegar grænmetið loksins kemur er mikill hraði í vextinum, til dæmis voru á mánudaginn komnir sextíu blómkálshausar á plönturnar í staðinn fyrir þá sem ég hafði skorið af laugardaginn á undan."

Spilar harmonikkutónlist og djass

"Hér er sérstaklega gaman þegar veður er gott," segir Kristín Björg Gunnarsdóttir, sem starfrækir grænmetismarkað við garðyrkjumiðstöðina Lund við Vesturlandsveg, sem opinn er miðvikudaga til föstudaga frá 15-18 og um helgar frá 12-18. Þar er ýmiss konar grænmeti í boði, m.a. alls kyns salat, kartöflur, kál og kryddjurtir og nokkrar ávaxtategundir eins og plómur, bláber og ferskjur. Hún segir hugmyndina vera að fá handverksfólk í lið með sér og að vonandi verði fljótlega farið að selja handverksmuni á markaðnum.

Kristín segir hugmyndina að markaðnum upprunna í Bandaríkjunum þar sem hún ólst upp, en tekur fram að grænmetið sem hún selur sé allt íslenskt. "Ég hef mjög gaman af þessu og finnst sérstaklega skemmtilegt að fá fólk hingað sem gefur sér tíma til að slappa af, setjast niður og spjalla. Ég spila gjarnan harmonikkutónlist eða jazz og hér er alltaf kaffi á könnunni."