Eileen Olivieri Torpey vinnur að sýningu sinni í garðinum.
Eileen Olivieri Torpey vinnur að sýningu sinni í garðinum.
ÖNNUR sýning útilistaverkefnisins "Listamannsins á horninu" verður opnuð í dag, laugardag, kl. 16, á horni Amtmannsstígs og Þingholtsstrætis.

ÖNNUR sýning útilistaverkefnisins "Listamannsins á horninu" verður opnuð í dag, laugardag, kl. 16, á horni Amtmannsstígs og Þingholtsstrætis. Bandaríski listamaðurinn Eileen Olivieri Torpey býður gestum og gangandi að njóta með sér vettvangsverksins "Söfnunar".

Verkið fjallar um þrá mannsins til þess að hafa áhrif á og/eða ná valdi yfir náttúrinni, eins og listamaðurinn segir sjálfur: "Þá nota ég ílát og vatn sem myndlíkingu fyrir hringrás lífsins og bið þá sem fram hjá fara að staldra við og gefa því kyrrlátlega gaum."

Eileen Olivieri Torpey kláraði masters-gráðu í myndlist frá Rutgers-háskólanum í New Brunswick vorið 2001 og B.A.-gráðu í myndlist frá Lewis og Clark-skólanum í Portland í Oregon fylki 1990 en hún býr nú og starfar í New York. Henni hafa hlotnast ýmsir styrkir, þeirra á meðal hinn eftirsótti Giza Daniels-Endesha styrkur og nú síðast var henni veittur styrkur frá bandaríska sendiráðinu á Íslandi til þátttöku í verkefninu "Listamaðurinn á horninu" sem styrkt er af menningarborgarsjóði.

Eileen Torpey hefur unnið jafnt með skúlptúr, myndband, ljósmyndir og innsetningar en sýning hennar "Söfnun" stendur í tvær vikur.