Anna Kristíne er mætt aftur til leiks.
Anna Kristíne er mætt aftur til leiks.
Á morgun eru liðin tíu ár síðan Anna Kristine hóf feril sinn í útvarpi. Hún segist ætla að halda upp á daginn með því að vera í útvarpinu ásamt áheyrendum sínum.

ÞAÐ hafa sjálfsagt margir saknað útvarpsþáttarins Milli mjalta og messu sem hefur verið í fjögurra mánaða sumarfríi. Það er Anna Kristine Magnúsdóttir sem stjórnar þættinum á Bylgjunni á sunnudögum milli kl. 9 og 11. En þeir hinir sömu geta nú tekið gleði sína að nýju því Anna Kristine er mætt aftur til leiks með fjölbreyttari þátt og það á tíu ára útvarpsafmælinu sínu.

Bók um sorg og gleði

"Þetta sumarfrí reyndist mjögheppilegt fyrir mig því það var ekki fyrr byrjað en haft var samband við mig frá Vöku-Helgafelli og ég beðin um að skrifa jólabók sem ég hef nú skilað af mér."

- Um hvað fjallar bókin?

"Hún er í anda Milli mjalta og messu þáttanna. Þetta eru lífsreynslusögur fimm ólíkra kvenna en samt er ótrúlega margt sem tengir þær. Þetta er bók um sorg og gleði, átök lífsins."

- Og hvernig er að vera rithöfundur?

"Mér fannst þetta mjög skemmtilegt en allt annar heimur en taka viðtöl fyrir útvarp eða sjónvarp. Ég fékk fullt af ráðum í byrjun en engin þeirra gögnuðust mér, þetta var svo ólíkt öllu sem ég hef gert," segir Anna Kristine sem á rúmlega 24 ára blaðamannsstarfsferil að baki og þar af mest á tímaritum.

"Tímaritaritaheimurinn kom að gagni en best reyndist mér að taka klukkutímalöng viðtöl fyrir Milli mjalta og messu. Þar þarf maður að fara á bakvið kjarnann og fá svör við spurningum sem er oft erfitt að spyrja og geta vakið upp sársauka í minningum viðmælenda. En það þarf að byggja miklu betur undir efni sem er að fara í bók en blað, því bækur lifa miklu lengur."

Mál sem snerta marga

"Milli mjalta og messu var þannig háttað að ég lék lög til tíu og síðan var viðtal, en nú verður einu sinni í mánuði getraun kl. hálftíu þar sem Edda - miðlun og útgáfa ætlar að gefa veglega bókavinninga. Svo kíki ég á feril ungra söngvara sem maður heyrir oft kynnta í útvarpinu en veit ekkert um hvaða fólk þetta er og hvenær það byrjaði að syngja, hvar og af hverju. Hefðbundnu viðtölin verða á sínum stað, en af og til verða þemaþættir þar sem ég kem inn á mál sem snerta marga og margir eru forvitnir um, eins og framhjáhald, siðblindu og mannasiði. Þá fæ ég til mín "sérfræðinga", fólk sem þekkir til málanna auk leikmanna og síðan mega hlustendur leggja sitt af mörkum eða spyrja spurninga."

Á morgun verða síðan tíu ár síðan Anne Kristine hóf ferilinn í útvarpinu og hún er ekki í vafa um hvernig halda skuli upp á það.

"Ég ætla að vera í útvarpinu með hlustendum mínum og svo getur vel verið að ég fari líka í ofurmömmuhlutverkið og taki upp pensilinn. Dóttir mín var að kaupa fyrstu íbúðina og ætlar að mála alla helgina."

Alltaf á leiðinni að hætta

En þótt undarlegt megi virðast segir Anna Kristine farir sínar ekki sléttar þegar útvarpsferillinn er rifjaður upp.

"Ég var alltaf á leiðinni að hætta og mér fannst það að tala í útvarp vera skelfilegasta reynsla sem ég hafði lent í! Mér fannst vont að tala í míkrafón, mér fannst ég tilgerðarleg og var viss um að ég myndi aldrei ná sambandi við hlustendur."

- En hvað svo?

"Svo rættist það sem Stefán Jón Hafstein spáði, að einn daginn myndi mér hvergi líða betur en í beinni útsendingu. Mér líður best í hljóðstofunni með mínu fólki, mínum áheyrendum að þættinum Milli mjalta og messu," segir Anna Kristine að lokum og lofar að vera áfram í útvarpinu svo lengi sem hlustendur halda áfram að hlusta.