TAP var á rekstri Lyfjaverslunar Íslands hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2001 upp á 32 milljónir króna, en á sama tíma á síðasta ári var hagnaður félagsins hins vegar 32 milljónir.

TAP var á rekstri Lyfjaverslunar Íslands hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2001 upp á 32 milljónir króna, en á sama tíma á síðasta ári var hagnaður félagsins hins vegar 32 milljónir. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam 116 milljónum króna á tímabilinu en 39 milljónum árið áður.

Í tilkynningu frá Lyfjaverslun segir að rekstrartap félagsins stafi fyrst og fremst af áhrifum gengislækkunar íslensku krónunnar. Félagið hafi orðið fyrir beinu gengistapi á erlendum skuldbindingum að fjárhæð 182 milljónir króna, en framlegð af sölu hafi einnig lækkað umtalsvert á tímabilinu, einkum vegna verðstýringar á lyfjaverði.

Lyfjaverslun hefur falið lögmanni að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ganga frá því með formlegum hætti að Jóhann Óli Guðmundsson skili 170 milljónum króna af nafnverði hlutafjár í félaginu, sem honum hafði verið afhentar sem greiðsla upp í kaupverð á Frumafli. Greiða átti 180 milljónir að nafnverði í hlutafé Lyfjaverslunar fyrir Frumafl. Þar af hafði Jóhann Óli fengið afhentar 170 milljónir. Í tilkynningu félagsins segir að seljandi Frumafls hafi ekki skilað hlutafénu til baka.

Tekjur Lyfjaverslunar á fyrstu sex mánuðum þessa árs eru nánast þrefalt hærri en á sama tíma árið áður, eða tæpir 3,2 milljarðar króna. Skýrist tekjuaukningin að mestu af því að í samstæðuuppgjöri Lyfjaverslunar Íslands hf. eru nú í fyrsta sinn dótturfélögin A. Karlsson hf., Thorarensen Lyf ehf., Lyfjadreifing ehf. og J.S. Helgason ehf. Tekjur þeirra námu samtals 1.841 milljón króna, en tekjuaukning annarra félaga samstæðunnar nam 242 milljónum, eða 22,6%. Í tilkynningu Lyfjaverslunar segir að deilurnar um félagið á fyrri hluta ársins 2001 hafi haft í för með sér kostnað umfram áætlanir og að vinna við hagræðingu vegna kaupa félagsins á A. Karlsson hf. og Thorarensen Lyf ehf. hafi tafist. Sú vinna sé nú í fullum gangi. Þrátt fyrir aukinn kostnað geri áætlanir ráð fyrir að rekstur ársins í heild verði jákvæður.

Eigið fé samstæðunnar í lok tímabilsins nam samtals 585 milljónum króna samanborið við 549 milljónir í ársbyrjun. Eignir samstæðunnar jukust úr 1.891 milljón króna í 4.771 milljón króna á fyrri hluta ársins, fyrst og fremst vegna kaupa á A. Karlsson og Thorarensen Lyf. Á sama tíma jukust skuldir samstæðunnar úr 1.348 milljónum króna í 4.195 milljónir króna.

Lyfjaverslun á fjórðungshlut í Lyfjaþróun hf., sem starfar við rannsóknir á lyfjum og lyfjagjöf. Í tilkynningunni segir að ákveðið hafi verið að auka hlutafé félagsins til að fjármagna áframhaldandi vöxt. Einkum hafi verið litið til erlendra fjárfesta sem sýnt hafi félaginu og starfsemi þess mikinn áhuga.

Lyfjaverslun Íslands hefur í samstarfi við Lyfju hf. hafið rekstur apóteka í Litháen og stefni að rekstri keðju apóteka í Eystrarsaltslöndunum. Rekstur fyrsta apóteksins hófst fyrir u.þ.b. hálfu ári og er uppsetning fleiri á lokastigi. Samstarfsverkefnið var í upphafi að hálfu í eigu Lyfjaverslunar Íslands og að hálfu í eigu rekstraraðila Lyfju. Samkvæmt samkomulagi mun nú Lyfja, dótturfélag Baugs hf., koma beint að samstarfinu.

Gert er ráð fyrir verulega bættri afkomu samstæðunnar á næsta ári í kjölfar hagræðingaraðgerða.