Kristinn Sigmundsson
Kristinn Sigmundsson
Einsöngslög eftir Schubert, Sibelius, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Markús Kristjánsson og Sigvalda Kaldalóns. Óperuaríur eftir Verdi. Kristinn Sigmundsson bassi; Jónas Ingimundarson, píanó. Fimmtudaginn 30. ágúst kl. 20.

KOLUPPSELT var á fyrri tónleikum þeirra Jónasar Ingimundarsonar og Kristins Sigmundssonar í Salnum á fimmtudagskvöld, og skyldi engan undra. Eftirsóttasti undirleikari landsins og e.t.v. ástsælasti söngvari þess hin síðari ár hafa fyrir löngu náð að mynda sterka tvennu sem ekkert fær við hróflað og gæti vafalaust gert sitt til að rétta við sígandi gengi viðskiptalífsins, væri hún skráð á verðbréfamarkaði. Meðverkandi þáttur þessara gífurlegu vinsælda er ugglaust hið notalega andrúmsloft sem ávallt umlykur framkomu dúósins. Þar ríkir fullkomið jafnræði og hlýhugur, bæði innbyrðis og í garð hlustenda, líkt og á heimilistónleikum í góðra vina hópi, þar sem launkímnar kynningar og lauflétt sjálfshæðni fljúga átakalaust um loft. Slíkt er vitaskuld ekki aðeins spurning um hæfilega óhátíðlegt lundarfar, heldur einnig um ærna atvinnumennsku, sem leyfir listamanni að slá á létta strengi að vild án þess í neinu að slaka á listrænum kröfum.

Það var á sinn hátt líka dæmi um pottþétta fagmennsku að ná eftirtektarverðum áhrifum í fyrstu 11 lögum dagskrár eftir Schubert og Sibelius þrátt fyrir blaðlestur, sem venjulega telst ekki heillavænleg nálgun miðað við að syngja utan að. En jafnvel þessi lög, sem eftir nótnapúltinu að dæma voru söngvaranum fátíðari en verkefnin eftir hlé, náðu víða að ljóma eftirminnilega, jafnvel Schubert-lögin fimm, sem þó voru flest á daprari nótum að efnisinntaki. Nefna mætti Greisengesang, harmsöng öldungsins, sem var mjúkt og innilega flutt þrátt fyrir gífurlegar tónsviðskröfur en samt blæbrigðaríkt, Das Abendrot geislaði sömuleiðis af átakalausum þokka og hið glæst-harmræna Aufenhalt (Áning) með hraðsaumuðu álfakóngsundirleikstremólói kom einnig frábærlega vel út.

Lagavalið frá Sibelius var í heild frísklegra og bauð upp á meiri átök og andstæður, jafnvel glettni eins og Vilse, eða tilhugalífsléttúð eins og Spånen på vattnet. Í Säf, säf, susa var spilað með tilþrifum á mikla melódramatíska kontrasta. Demanten på marssnön tjaldaði ljúfum söng og merlandi píanóleik, og hið meistaralega Flickan kom ifrån sin älsklings möte - e.k. gagnorð finnlandssænsk útgáfa af blóðheitri Ossían-ballöðu eins og "Edward, Edward!" - var tekin af hreint út sagt magnaðri snilld, enda þótt flytjendur hefðu kannski mátt gefa sér ögn meiri tíma á hendingamótum og leyfa skilaboðunum að síga betur inn.

Íslenzku lögin sex eftir hlé mynduðu ef ekki dramatískan þá hjartfólginn hápunkt kvöldsins. Það þarf engum að dyljast er litið hefur Kristin Sigmundsson augum, að söngvarinn er sem fæddur í hlutverk fursta og fyrirmanna. Ekki minnkar það þegar röddin tekur við, enda var túlkun hans á Sverri konungi eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson í senn svo tigin og mannleg að vakti hlustendum nærri því gæsahúð. Upphafin kyrrðin í Kvöldsöng Markúsar Kristjánssonar undirstrikaðist enn gerr af óviðjafnanlegum syngjandi aftanklukkuleik píanósins, og svipuð dúnmjúk blíða umvafði Minningu sama höfundar. Hamraborgin margþvælda öðlaðist beinlínis nýtt líf í snilldarlegri túlkun dúósins, ekki sízt fyrir slynga tímasetningu, og hin Kaldalónslögin tvö, Ég lít í anda liðna tíð og Þótt þú langförull legðir, leiftruðu af innsæjum næmleika sem í síðasta verkinu brúaði bilið yfir í sviðsdramatík Verdis með sannkölluðu "grandissimo" niðurlagi.

Kynningar Kristins á Verdi-aríunum þremur sem mynduðu lokahápunkt prentaðrar dagskrár, voru eiginlega litlu ósnjallari en sjálfur flutningurinn. Hlustendur voru leiddir af markvissri ljúfmennsku inn í kringumstæður, hvorki sagt of né van, og jafnvel "skemmt um hinn óskemmtilegasta hlut" svo meistarapredikari Vídalín hefði ekki getað gert betur. Bæn æðstaprests gyðinga um lausn úr Babelsánauðinni í Tu sul Labbro úr Nabucco var þrungin trúheitri alvöru, og feigðarhugboð Bankós í Come dal ciel precipita úr Macbeth magnaði í senn upp ógn, harm og hetjuskap með safaríkum krafti og karlmennsku.

Dormiro sol, hin kunna tragíska aría Filpppusar II Spánarkonungs á úrslitastundu þríhyrningsdramans á móti prinsessunni af Valois og syninum Don Carlo að undangengnu ariosokafla, þar sem arían sjálf er borin uppi af örlagaþrungum hornafimmundum í undirleiknum, var í einu orði sagt stórbrotin. Hér fór túlkun af þeirri gráðu sem komið getur jafnvel harðsvíruðum óperuandstæðingi til að trúa. Sást það á stormandi undirtektum tónleikagesta svo ekki varð um villzt, enda dugðu ekki færri en þrjú aukalög til að hemja hlustendur til heimfarar.

Ríkarður Ö. Pálsson