Guðrún Pálsdóttir, útgerðarmaður og fiskverkandi á Flateyri, ásamt syni sínum Birki Guðmundssyni.
Guðrún Pálsdóttir, útgerðarmaður og fiskverkandi á Flateyri, ásamt syni sínum Birki Guðmundssyni.
GUÐRÚN Pálsdóttir hefur ásamt eiginmanni sínum Einari Guðbjartssyni og fjölskyldu sinni gert út trillu og rekið harðfiskverkun á Flateyri um árabil.

GUÐRÚN Pálsdóttir hefur ásamt eiginmanni sínum Einari Guðbjartssyni og fjölskyldu sinni gert út trillu og rekið harðfiskverkun á Flateyri um árabil. Hún segir að nú sé hinsvegar búið að kippa grundvellinum undan slíkum rekstri en fólkið sitji uppi með verðlausar eigir og miklar skuldir.

"Við höfum átt bát frá árinu 1980 og gert út frá árinu 1978. Þetta voru hinsvegar opnir bátar sem við gerðum út á handfæri á sumrin. Þess vegna veiddum við ekki ýsu og steinbít á viðmiðunarárunum. Þegar öll stóru skipin með aflaheimildum voru seld úr plássinu misstum við vinnuna eins og margir aðrir íbúar þorpsins. Þá stóðum við frammi fyrir því vali að flytja og skilja eftir eigur okkar eða að reyna að bjarga okkur á einhvern hátt. Við ákváðum hinsvegar að fara út í harðfiskverkun yfir vetrarmánuðina og gerðum út trilluna á sumrin til að skapa okkur atvinnu. Þegar við endurnýjuðum skipakostinn með Blossa ÍS jukust hinsvegar umsvif hjá okkur, því hann hefur verið gerður út allt árið og aflað hráefnis til harðfisksverkunarinnar og jafnframt skapað ný störf til sjós og lands, bæði í beitningu og í verkuninni. Nú eru hinsvegar blikur á lofti þegar nýju lögin taka gildi og verður bátnum lagt um stundarsakir meðan við athugum hvað hægt er að gera í stöðunni."

Þarf að segja upp starfsfólki

Guðrún segir að núna verði bátnum lagt um sinn vegna þess að þorskkvótinn sé lítill og hann hafi nánast engan kvóta í ýsu eða steinbít. Við útgerðina og verkunina starfa að jafnaði 8-10 manns en Guðrún segir að nú þurfi hún að segja upp fólki. "Það er bannað að koma með fisk í land sem ekki er til kvóti fyrir og það er líka bannað að henda honum aftur í hafið. Við getum því ekkert aðhafst.

Við höfum þessvegna sagt upp starfsfólki, sem allt er fólk sem á húseignir á Flateyri. Með lögunum sem taka gildi núna er verið að kippa undan okkur fótunum og það ekki í fyrsta sinn. Stjórnvöld standa frammi fyrir því að ákveða hvort þau ætla að leyfa fólkinu að búa í þessum þorpum sem hafa byggst upp vegna nálægðar við gjöful fiskimið eða hvort þau ætla að flytja okkur sem hreppsómaga til Reykjavíkur og gera okkur þar að þrælum sem þurfa að vinna fyrir verðlausum eignum og skuldum sem við sjáum aldrei fram úr. Það er búið að stilla okkur þannig upp við vegg að okkur eru allar bjargir bannaðar. Við höfum ekkert val, ákvörðunin er stjórnvalda. Ég vona og trúi ekki öðru en stjórnvöld leysi þessa stöðu. Ég tel að það sé best gert með því að framlengja það kerfi sem verið hefur í þorskaflahámarkinu, þannig að við endurheimtum þann mikla kraft og bjartsýni sen ríkt hefur að undanförnu á Flateyri eins og svo víða um land.

Eins og allir vita urðu Flateyringar fyrir miklu áfalli fyrir fáum árum af völdum náttúruhamfara. Við ákváðum að búa hér áfram en nú stöndum við frammi fyrir því að byggðin verði lögð í eyði af mannavöldum," segir Guðrún

Vildi sanna sig

Birkir Guðmundsson, sonur Guðrúnar, hefur verið skipstjóri á Blossa ÍS undanfarin tvö ár og í sumar var systir hans, Steinunn Guðný, háseti á bátnum. Hann segist hafa veitt um 93 tonn af ýsu í fyrra og um 90 tonn á þessu ári. Bátnum sé hinsvegar úthlutaður 2,3 tonna ýsukvóti og 118 kílóa kvóta í steinbít. "Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að gera út á þannig kvóta. Við stóðum frammi fyrir því fyrir tveimur árum að selja bátinn og hætta. Ég vildi hinsvegar sanna mig og því var báturinn endurnýjaður. Eins og staðan er núna stefnir allt í að ég rói einn á bátnum því við erum í þannig aðstöðu að við getum ekki selt útgerðina vegna skulda. Maður verður því að bíða og sjá hvort grundvöllur er fyrir því að leigja til sín heimildir. En það er óvíst hvort það borgi sig, því línuútgerð er svo dýr. Okkur er hinsvegar óheimilt að sækja kvótann til dæmis í net, sem er mun ódýrari veiðiskapur. Þrátt fyrir að sífellt sé verið að tala um jafnræði milli útgerðarflokka erum við skikkuð til að veiða aðeins á króka," segir Birkir.