MIKIÐ er Ríkisútvarpið fundvíst á allt hið ljóta og ógeðslega í þjóðfélaginu. Ég hefi alltaf haldið að það ætti að vera musteri íslenskrar tungu og um leið hins góða í þjóðlífinu. Því miður finnst mér þetta ekki alltaf vera eins og það ætti að vera.

MIKIÐ er Ríkisútvarpið fundvíst á allt hið ljóta og ógeðslega í þjóðfélaginu. Ég hefi alltaf haldið að það ætti að vera musteri íslenskrar tungu og um leið hins góða í þjóðlífinu. Því miður finnst mér þetta ekki alltaf vera eins og það ætti að vera. Ég hefi undanfarið reynt að hlusta á leikrit sem eru eftir hádegið og á erfitt með að hugsa að ég sé að hlusta á mitt gamalgróna og virðulega útvarp og verður í því sambandi hugsað til þeirra sem stóðu að því í byrjun. Þessi leikrit eru svo upptekin af sóðalegum talsmáta, að ég tali nú ekki um ákall til hins vonda. Ég hélt að mælirinn myndi einhverntímann fyllast, en nú þegar ég er að semja þessar fáu línur, er verið með eitt af þessum frægu leikritum og þar stendur ekki á því að fjandinn sé þar svo að segja í öðru hverju orði. Og nú spyr ég: Er ekki hægt að fá smekklegri leikrit en þau sem hafa verið í útvarpinu á þessu ári? Hverjir stjórna þessari list?

Við eigum svo fallegt og kjarnyrt mál, að það er enginn vandi að velja úr. En ef þetta er sú menning sem við eigum von á í framtíðinni, þá er ekki mikið gefandi fyrir þetta. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og þarf ekki börn til. Ég hefi bent oftsinnis á hve það fer í vöxt að menn noti ógeðslegt orðbragð og sé orðið svo tamt að fólk er hætt að hneykslast á því. Þegar menn segja jafnvel að þetta og hitt sé helv. gott, þá finnst mér margir vera orðnir ruglaðir í ríminu því ég hefi aldrei heyrt fjandann vera sérstaklega nefndan í sambandi við það sem gott er. Þetta er að mínu viti orðið svo áberandi í þjóðlífi okkar að fólk ákalli hann og það sé þeim allt að því ómissandi.

Þótt ég nefni leikritin sem hafa verið eftir hádegið í útvarpinu, þá eru margir fleiri þættir og viðtöl þar sem gripið er til fjandans til að leggja áherslur á, og ég hugsa oft til kirkjunnar minnar, sem kyngir orðalaust ýmsu sem ekki er hafandi eftir.

Ég vona að útvarpið okkar fari að athuga sinn gang í þessum efnum, og jafnvel taka upp þátt sem leiðbeinir fólki um að ljótur munnsöfnuður er hvergi til gagns eða prýðis.

Með vinsemd og virðingu.

ÁRNI HELGASON,

Stykkishólmi.

Frá Árna Helgasyni: