SINDRI M. Stephensen sendir mér tóninn hér í Morgunblaðinu og gerir að umtalsefni að ég tími ekki að borga fyrir myndbandsspólur.

SINDRI M. Stephensen sendir mér tóninn hér í Morgunblaðinu og gerir að umtalsefni að ég tími ekki að borga fyrir myndbandsspólur. Sindri hefur greinilega ekki lesið bréfið frá mér en umfjöllunarefni þess var ekki kostnaður vegna leigu á myndböndum heldur reiði vegna þess að eigandi myndbandaleigunnar Grandavídeó stóð ekki við orð sín. Eigandinn bauðst sjálfur til að fella niður skuld og við þáðum það. Hann gekk síðan á bak orða sinna og fór með miklu offorsi gegn ungum námsmönnum sem hafa annað við sína peninga að gera en að fóðra vasa lögfræðinga. Engin viðvörun var gefin áður en skuld var send í innheimtu og því vissum við ekki annað en allt væri í ljúfri löð milli okkar og myndbandaleigunnar. Af þeim sökum minnti maðurinn mig á Shylock hinn hefnigjarna og sennilega stafar misskilningur Sindra einnig af því að hann þekkir ekki gyðinginn.

Ég kvartaði einnig yfir því að maðurinn neitaði að draga kröfuna til baka og þeirri staðreynd að hann fór gegn syni mínum sem var saklaus af allri vanrækslu gagnvart vídeóleigunni. Skuld sonar míns hefur verið nafnbreytt þannig að tæknilega skuldar hann ekki krónu. Það þarf einstaklega næmt auga fyrir táknum í texta til að geta lesið út úr þessu tregðu til að borga fyrir veitta þjónustu. Það kann vel að vera að Grandavídeó sé ódýr leiga en það er sama hvort menn bjóða lágt verð eða okra, það hefur hingað til verið talið merki um gott viðskiptasiðferði að standa við orð sín.

Síðan ég skrifaði fyrra bréfið hafa haft samband við mig ótalmargir sem ekki segja farir sínar sléttar af viðskiptum við þessa myndbandaleigu og í raun ótrúleg sum málin. Til gamans má nefna að skuld vinar sonar míns er 5.500 kr. og kona sem hafði samband við mig skuldaði 2.300 kr. og þetta er komið í lögfræðiinnheimtu. Mörgum íslenskum fyrirtækjastjórnendum hefur nú blöskrað skuldseiglan fyrr. Einn fyrrverandi viðskiptavinur Grandavídeós er ofsóttur vegna 20.000 kr. skuldar af spólu sem hann skilaði á réttum tíma. Einhver handvömm varð til þess að spólan var ekki skráð inn fyrr en löngu síðar og af þessu sýpur maðurinn seyðið. Mikið er samt gott til þess að vita að ljúfmennið í Grandavídeói á einhverja vini.

STEINGERÐUR

STEINARSDÓTTIR,

Neðstutröð 2, 200 Kópavogi.

Frá Steingerði Steinarsdóttur: