Menningarhátíðin Ljósanótt tekur nafn sitt af því að þá er kveikt á lýsingu Bergsins. Hér sést smábátasjómaður þrífa bát sinn undir Berginu. Ekki virðist hann þurfa á ljósunum að halda.
Menningarhátíðin Ljósanótt tekur nafn sitt af því að þá er kveikt á lýsingu Bergsins. Hér sést smábátasjómaður þrífa bát sinn undir Berginu. Ekki virðist hann þurfa á ljósunum að halda.
MENNINGARHÁTÍÐIN ljósanótt er haldin í Reykjanesbæ í dag í annað sinn. Fjölmargt er á dagskránni frá morgni og fram á nótt. Hápunktur hátíðarinnar er kvölddagskrá í Grófinni og nágrenni.

MENNINGARHÁTÍÐIN ljósanótt er haldin í Reykjanesbæ í dag í annað sinn. Fjölmargt er á dagskránni frá morgni og fram á nótt. Hápunktur hátíðarinnar er kvölddagskrá í Grófinni og nágrenni.

Á dagskránni er fjöldi myndlistarsýninga, tónleikar, söngdagskrár og kvikmyndasýningar. Frumflutt verður óperan Zeta ástarsaga eftir Sigurð Sævarsson. Söfnin verða opin og ýmislegt þar um að vera. Hafnargatan verður göngugata og þar verða götuleikarar á ferðinni.

Sérstök dagskrá er fyrir börn frá hádegi og fram eftir degi, auk íþrótta og leikja. Í síðarnefnda flokknum má nefna Suðurnesjamaraþon og landsleik í körfubolta á milli Íslands og Írlands í íþróttahúsinu í Njarðvík.

Kvölddagskrá í Grófinni

Kvölddagskráin hefst í Grófinni klukkan 20.30. Þar verður bryggjusöngur sem Rúnar Júlíusson tekur þátt í meðal annarra. Kveikt verður á lýsingu minnismerkis sjómanna sem flutt hefur verið á nýjan stað og kveikt á vetrarlýsingu Bergsins en hátíðin tekur nafn sitt af þeirri athöfn. Flugeldasýning verður upp úr klukkan tíu. Síðan verður uppboð á málverkum við Svarta pakkhúsið og bryggjuball fyrir unglinga. Loks verða dansleikir á nokkrum stöðum fram á nótt.

Verslanir í Reykjanesbæ verða opnar frá klukkan 10 til 18 í dag og veitingastaðirnir verða með ýmis tilboð.

Dagskrá á Netinu

Dagskrá ljósanætur er dreift í Reykjanesbæ. Einnig er unnt að skoða hana í heild á Netinu, meðal annars á vef Reykjanesbæjar, www.reykjanesbaer.is, og á vef Suðurnesjafrétta, www.sudfr.is/ljosanott. Þá verður útvarpsstöðin FM 95,7 með beina útsendingu frá hluta hátíðarinnar.