Skólarnir þurfa svo kannski að koma sér upp frystikistu í hverri stofu til að börnin geti tekið með sér ávaxtafrostpinna að heiman, samkvæmt ráði einhverrar ísgerðarinnar?

Drykkjaframleiðandinn Vífilfell hefur gefið í skyn í bréfi til foreldra skólabarna að Manneldisráð Íslands styðji að íslensk skólabörn drekki Svala þar sem "...mörg börn eru illfáanleg til þess að taka með sér grænmeti og ávexti í skólann, litlar hendur ráða illa við börk og hýði og brauðið subbast út af niðurskornum appelsínum. Til er lausn á þessu vandamáli, safar og safadrykkir eins og t.d. Svali. Svali er þægileg og handhæg lausn bæði fyrir nemendur og kennara," að sögn Vífilfells. Fyrirtækið hefur matvælafræðing á sínum snærum og í samtali við Morgunblaðið þurfti sá fræðingur að verja athæfi fyrirtækisins og benti á að í Svala væri safi sem jafngilti u.þ.b. einni appelsínu og kallaði hann Svala einnig hollan drykk, til þess fallinn að auka neyslu barna á fæðu úr ávaxtaflokkinum.

Egils appelsín mun seint teljast hollur drykkur, en ku innihalda einhvern ávaxtasafa. Mega foreldrar skólabarna búast við svipaðri vitleysu frá Ölgerðinni og barst frá Vífilfelli? Sultugerðir munu e.t.v. ota sinni vöru að foreldrum með þessum hætti til að auka neyslu skólabarna á fæðu úr ávaxtaflokknum? Skólarnir þurfa svo kannski að koma sér upp frystikistu í hverri stofu til að börnin geti tekið með sér ávaxtafrostpinna að heiman, samkvæmt ráði einhverrar ísgerðarinnar?

Matvælafræðingur Vífilfells benti á að ekki mætti fara einstigi í þessu máli. Aukin sykurneysla íslenskra barna væri ekki eingöngu vegna sykraðra ávaxtadrykkja, heldur einnig vegna sykraðra mjólkurvara. Þetta er að vísu rétt ábending, en réttlætir ekki skrif Vífilfells. Raunin er þó sú að það sem íslensk börn borða oft fyrrihluta dags sem undirstöðu, er sykrað morgunkorn, sykraðar mjólkurvörur og sykraðir ávaxtadrykkir.

Í þeim óteljandi tegundum af morgunverðarmjólkurvörum á íslenskum matvörumarkaði er það aðeins skyr, súrmjólk og hrein jógúrt sem ekki er bætt sykri. Í örfáum tilvikum er sykurinn skertur og tilbúin sætuefni notuð til að ná fram því sæta bragði sem íslensk börn eru orðin vön og krefjast.

Hér verður ekki haldið áfram predikunum um berstrípað hægfæði eða seinmeti eins og mér barst ábending um að kalla andstæðu skyndibitans. Því ætla ég ekki að reka áróður fyrir því að strípa mjólkurmarkaðinn og hafa þar aðeins mjólk, rjóma, mysu og skyr, ásamt undanrennu og súrmjólk, líkt og einhver íhaldsmaðurinn áleit að brauðmarkaðurinn væri best kominn með rúgbrauði, heilveitibrauði, franskbrauði og normalbrauði eins og í gamla daga.

Það er ekki leiðin. Hins vegar væri fær leið að huga að börnunum og því sem fyrir þeim er haft í litskrúðugum kæliskápum matvöruverslananna. Engjaþykkni með 17 grömmum af sykri í hverjum 100 grömmum? Hrísmjólk með 20 g í 100 g? Þá er skárri kostur óskajógúrt, þó með 11 g, léttjógúrt með sætuefni og mjólkursykri eða léttjógúrt án sætuefnis með 13 g af sykri. Eða bara hrein jógúrt með ferskum ávöxtum að eigin vali.

Nú er það svo að íslenskir neytendur þurfa að leggjast í rannsóknarvinnu til að finna hollar mjólkurvörur sem henta þeim og börnunum þeirra, innihalda kalk og D-vítamín, eru sykurlitlar, og eftir því sem við á fitulitlar. Þegar um 15 g af kolvetni eru í hverjum 100 g af mjólkurvöru má reikna með að um 4 g séu náttúrulegur mjólkursykur en afgangurinn viðbættur sykur. En við höldum áfram að raða sykruðum mjólkurvörum, sykruðu mjólkurkorni og sykruðum ávaxtasafa í innkaupakörfurnar og bera á morgunverðarborð. Það gefur augaleið að þetta mun hafa áhrif á almennt heilsufar þjóðarinnar, holdafar og tannheilsu.

Markaðssetning á mjólkurvörum er mikið á þann veg að þær séu fitulitlar, sem hentar flestum fullorðnum, en hið óheyrilega sykurmagn í hverri dollu hentar hvorki börnum né fullorðnum. Íslensk börn hafa vanist miklu sykurmagni í fæðunni og er svo komið að 15 ára börn neyta að meðaltali um 100 gramma af sykri á dag en það jafngildir 44 sykurmolum. Samkvæmt nýrri rannsókn neyta tveggja ára börn 32 gramma af sykri á dag og ljóst að sykurneysla íslenskra barna byrjar snemma og eykst ár frá ári.

Yfir kókópöffsáti Íslendinga standa margir agndofa og þarf það ekki að koma á óvart. Fólk sem lítur kókópöffs sömu augum og hafragraut í staðinn fyrir að leggja kúlurnar að jöfnu við Nóakropp á sér varla viðreisnar von eða hvað? Hvað með hugarfarsbreytingu í þessum efnum, börnunum og fullorðnum til hagsbóta? Börnin fylla nú upp í orkuþörf sína með sykraðri fæðu á öllum vígstöðvum, en fá nauðsynleg næringarefni af skornum skammti. Þetta gerir þau slöpp og einbeitingarlítil, viðkvæmari og feitari. Flestir reyna að halda í nammidag einu sinni í viku en halda þess á milli í reglur um tiltölulega hollt fæði. Með því úrvali sem er í íslenskum matvörubúðum er það ekki svo auðvelt og ekki allt hollt sem haldið er á lofti sem hollustu. Auðveldara er að ná í sykraða fæðu af öllu tagi.

Margar af áðurnefndum mjólkurvörum eiga betur heima innan um búðinga, ís og aðra eftirrétti sem notaðir eru til hátíðabrigða, eins og næringarfræðingar hafa bent á, en ekki innan um mjólkurvörur sem markaðssettar eru sem nauðsyn á hvers manns morgunverðarborði og kalkuppspretta í fæðu barna og fullorðinna.

Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is