Tómas Gunnarsson
Tómas Gunnarsson
Upplýsingar, segir Tómas Gunnarsson, er langmikilvirkasta slysavörnin.

ÉG minni á að ég hef nýlega sent ritstjórn Morgunblaðsins til birtingar tvær blaðagreinar, tengdar máli Árna Johnsen, fyrrverandi alþingismanns. Fyrri greinin, "Afhjúpun stjórnarhátta", er dagsett 26. júlí 2001 og barst ritstjórninni daginn eftir, en seinni greinin, "Ábyrgð stjórnmálamanna", er dagsett 1. ágúst 2001 og barst ritstjórninni þann dag. Auðvitað er það alfarið mál ritstjórnarinnar einnar hvort og hvenær hún birtir aðsendar greinar, en sem greinarhöfundur og slakur lesandi tel ég nauðsynlegt að ritstjórnin birti reglur sem gilda um birtingu aðsendra greina þannig að öllum sem hlut eiga að máli megi vera ljóst hvaða reglur gilda þar um þegar þeir setja saman grein eða lesa Blaðið.

Háskalegu opinberu stjórnarhættirnir eiga við atriði, sem vikið er að í báðum ofan nefndum greinum, sem sagt því, að opinberri stofnun, Ríkisendurskoðun, sem augljóslega hefur verið helsti tæknilegi skipulags- og eftirlitsaðili um meðferð opinbers fjár, skuli einni, á fyrstu stigum málsins, vera falin rannsókn misferlismáls, sem varðar störf og starfshætti hennar svo mjög. Í þessu sambandi er minnt á að upplýsingar um háskalegar aðstæður og háskalegar aðferðir opinberra aðila, sem og einkaaðila, eru langmikilvirkasta slysavörnin, sem almenningur ætti að eiga kost á og á ótvíræðan rétt á af fjölmiðli, sem gefur sig út fyrir að fjalla opinskátt um mál. Þögn um háskalega opinbera stjórnarhætti getur ekki verið og á ekki að vera geðþóttamál ritstjórnar.

Mál Árna Johnsen, fyrrverandi alþingismanns, er ekki eftirtektarvert vegna "hliðarspora", eins manns, sem leitast við að taka á sig alla sök. Málið er eftirtektarvert vegna þess, að fjölmargir opinberir aðilar, sem tengjast málinu beint og óbeint, á Alþingi, í stjórnsýslunni og í réttarkerfinu, sem hefðu augljóslega átt að bregðast við, hafa ekki gert það. Málið er einnig eftirtektarvert vegna þess að umsvifamikill verktaki, meðal annars að opinberum verkum, tengdist meintu misferli. Þannig virðist að opinbert fé hafi farið í gegnum viðskiptarásir Ístaks hf. á leið sinni til einkanota Árna Johnsen. Skýringar á því, hvernig það gat gerst í stóru nútímafyrirtæki með mikla verkaskiptingu og aðkomu margra manna að öllum stærri verkum, skortir. Mál Árna Johnsen er ekki aðeins sögulegt vegna afsagnar hans sem alþingismanns. Seinna verður það metið annaðhvort sem vegvísir á hrun þess skipulags, sem við búum við í dag, eða og vonandi sem vatnaskilamál í stjórnarháttum og þjóðlífi Íslendinga.

Sem áskrifandi og lesandi Morgunblaðsins óska ég skýringa ritstjórnarinnar á fréttaþögn Blaðsins um háskalegar og ólögmætar rannsóknaraðferðir við mál Árna Johnsen. Óska einnig birtingar þessa opna bréfs í Morgunblaðinu.

Aths. ritstj.:

Vegna fyrirspurna greinarhöfundar skal eftirfarandi tekið fram:

Morgunblaðið birtir greinar eftir nafngreinda höfunda, að því tilskildu að þær brjóti ekki í bága við meiðyrðalöggjöf og að mönnum og málefnum sé sýnd full virðing í texta.

Hámarkslengd aðsendra greina er 6.000 tölvuslög með orðabilum. Lengri greinar eru birtar á Morgunblaðinu á netinu.

Á sunnudögum og í undantekningartilvikum aðra daga birtast greinar undir heitinu Skoðun, sem eru lengri en 6.000 tölvuslög. Biðtími vegna birtingar þeirra greina getur verið margar vikur.

Stundum getur orðið dráttur á birtingu greina vegna þrengsla í blaðinu. Þá er reynt að láta greinar, sem fjalla um brýn málefni njóta forgangs.

Morgunblaðið vísar því á bug að "fréttaþögn" hafi ríkt á blaðinu um "háskalegar og ólögmætar rannsóknaraðferðir við mál Árna Johnsen."

Morgunblaðið hefur birt allar upplýsingar sem fram hafa komið um málið sjálft og rannsókn þess.

Höfundur er lögfræðingur.