Katrín Hall listdansstjóri.
Katrín Hall listdansstjóri.
Á KYNNINGARFUNDI Borgarleikhússins um vetrarstarfið kynnti Katrín Hall listdansstjóri verkefnaskrá Íslenska dansflokksins. Fyrsta verkefnið er Plan B, nýtt verk eftir Ólöfu Ingólfsdóttur við tónlist eftir Hall Ingólfsson.

Á KYNNINGARFUNDI Borgarleikhússins um vetrarstarfið kynnti Katrín Hall listdansstjóri verkefnaskrá Íslenska dansflokksins. Fyrsta verkefnið er Plan B, nýtt verk eftir Ólöfu Ingólfsdóttur við tónlist eftir Hall Ingólfsson. Ólöf hefur samið fjölmörg dansverk, bæði fyrir sjálfa sig og aðra. M.a. hefur Íslenski dansflokkurinn flutt verk Ólafar, Maðurinn er alltaf einn, bæði hérlendis og erlendis. Plan B var frumsýnt í Salisbury í Englandi 1. júní 2001.

Þá verður frumflutt nýtt verk eftir Katrínu Hall við tónlist eftir Pan Sonic og Barry Adamsson, The Hymn of the 7th. Illusion, í flutningi Hljómeykis.

Tónverkið er samið að beiðni Tilraunaeldhússins og er samvinnuverkefni ÍD og Tilraunaeldhússins.

Í október verður frumsýnt nýtt verk eftir Láru Stefánsdóttur við tónlist Leifs Þórarinssonar, "Da" Fantasía fyrir sembal í flutningi Guðrúnar Óskarsdóttur.

Er horfi ég í augun þín... Komdu í kvöld... Hvar ertu...? Við gleymum stund og stað... Komdu og vertu hjá mér... er yfirskrift söng- og danssýningar þar sem "uppáhaldslögin" hljóma. Frumsýning er áætluð í nóvember á stóra sviðinu.

Dansflokkurinn og Leikfélag Reykjavíkur verða síðan í samstarfi um eina sýningu þar sem flutt verða dansverk eftir Richard Wherlock og Itzik Galili.

Wunderbar eftir Richard Wherlock er samið við tónlist eftir Johann Strauss og Gioacchino Rossini.

Richard Wherlock hefur starfað sem listrænn stjórnandi ýmissa dansflokka, m.a. BerlinBallett við Komische Oper í Berlín. Nú í haust verður Richard Wherlock listrænn stjórnandi dansflokksins Ballett Basel í Sviss.

Through Nana's eyes eftir Itzik Galili er samið við tónlist Toms Waits. Itzik Galili er fæddur í Tel Aviv í Ísrael. Hann hefur samið yfir 40 dansverk og starfað við fjölda dansflokka um heim allan.

Frumsýning í febrúar á stóra sviðinu.

Þá efna Íslenski dansflokkurinn og Listahátíð í Reykjavík til samvinnu um nýtt verk upp úr sögu eftir Halldór Laxness og er frumsýning fyrirhuguð í maí.

Undanfarin ár hefur Íslenski dansflokkurinn vakið athygli erlendis og hlotið góðar viðtökur.

Í september er áætluð ferð til Linz í Austurríki með verkin Maðurinn er alltaf einn, Elsa og Kraak I.

Að sögn Katrínar Hall hefur verið óskað eftir sýningum dansflokksins víða um heim og er verið að vinna úr þeim óskum.