HALLDÓR Ásgrímsson, utanríkisráðherra, segir að það sé mjög jákvætt að þessi niðurstaða liggi fyrir varðandi Reyðarál.

HALLDÓR Ásgrímsson, utanríkisráðherra, segir að það sé mjög jákvætt að þessi niðurstaða liggi fyrir varðandi Reyðarál.

"Ég hef að vísu ekki séð rökstuðninginn en mér sýnist að þau skilyrði sem sett eru séu þess eðlis að menn hljóti að leita leiða til að koma til móts við þau. Hins vegar er ljóst að það verður engin álverksmiðja byggð án rafmagns," sagði Halldór.

Hann sagði að fallist hefði verið á hafnarframkvæmdir, línulagnir og vegaframkvæmd, en hins vegar hefði virkjuninni verið hafnað af skipulagsstjóra. "Nú verður að vinna það mál með þeim hætti sem lög mæla fyrir um," sagði Halldór.

Hann sagði að andstaðan við virkjunina hefði ekki síst verið vegna þess að margir hefðu talið að álframleiðsla væri ekki í samræmi við umhverfisvænan iðnað og margir andstæðingar haldið því fram að það væri hins vegar allt í lagi að framleiða vetni með þessari orku og það væri rétt að geyma byggingu virkjunarinnar þar til sú tækni væri fyrir hendi.

"Mér sýnist að með þessum úrskurði sé það staðfest að álframleiðsla er í fullu samræmi við þá ímynd sem umhverfisvænn iðnaður hefur, enda hafa þessar verksmiðjur gerbreyst frá fyrstu tíð," sagði Halldór.

Hann ítrekaði að hann hefði ekki fengið úrskurðinn í hendur og hefði því ekki haft tækifæri til að kynna sér forsendur hans.