SEX mánaða uppgjör Baugs hf. er yfir væntingum greiningardeildar Íslandsbanka, að sögn Almars Guðmundssonar, forstöðumanns deildarinnar. Baugur hf.

SEX mánaða uppgjör Baugs hf. er yfir væntingum greiningardeildar Íslandsbanka, að sögn Almars Guðmundssonar, forstöðumanns deildarinnar. Baugur hf. skilaði 373 milljóna króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins, en 291 milljón á sama tíma í fyrra, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær.

"Ekki verður séð annað en að rekstur Arcadia eigi eftir skila félaginu viðunandi arði til skemmri tíma, auk þess sem athyglisvert verður að fylgjast með framvindunni hjá Bonus Stores í Bandaríkjunum en því verkefni fylgir mikil áhætta. Miklu skiptir fyrir félagið að boðað kostnaðaraðhald skili sér á síðari árshelmingi," segir Almar.

"Velta félagsins á öðrum ársfjórðungi var meiri en gert var ráð fyrir í okkar spá. Uppgjörið litast hins vegar nokkuð af auknum kostnaði hjá félaginu. Annars vegar hafði snögg gengislækkun krónunnar sterkari neikvæð áhrif á álagningu en við gerðum ráð fyrir, álagning í vörusölu var 24,6% en var 25,1% í fyrra. Aftur á móti voru laun og annar rekstrarkostnaður hærri en við gerðum ráð fyrir en það skýrist m.a. af umfangsmiklum uppbyggingarverkefnum hjá félaginu," segir Almar Guðmundsson hjá Íslandsbanka.