Óskar Færseth með tvo 14 punda bolta úr Stóru-Laxá í Hreppum.
Óskar Færseth með tvo 14 punda bolta úr Stóru-Laxá í Hreppum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ á eftir að bera saman allar bækur í Norðurá, en lokatalan verður trúlega nærri 1.350 löxum. Það er talsvert minni veiði en í fyrra þegar áin gaf 1.655 laxa og var í öðru sæti á eftir Eystri Rangá.

ÞAÐ á eftir að bera saman allar bækur í Norðurá, en lokatalan verður trúlega nærri 1.350 löxum. Það er talsvert minni veiði en í fyrra þegar áin gaf 1.655 laxa og var í öðru sæti á eftir Eystri Rangá.

Bergur Steingrímsson sagði í samtali við Morgunblaðið að stjórn SVFR hefði ekki þungar áhyggjur og liti ekki á þetta sem niðursveiflu, þvert á móti fullyrtu menn sem gerþekktu Norðurá, Jón G. Baldvinsson, Friðrik Þ. Stefánsson og fleiri, að meira væri af laxi í ánni en síðustu sumur. "Tvennt spilar inn í þessa lægri tölu, það voru óvenjulega langir kaflar þar sem skilyrði til veiða voru afleit og svo var engin maðkveiði eftir flugutíma um hásumar eins og verið hefur. Maðkveiðin hefur alltaf aukið veiðina, en nú var maðkur ekki settur í ána eftir að flugan var orðin eina agnið í byrjun júlí," sagði Bergur.

Hástökkvarinn Langá

Miðað við stangarfjölda jókst veiðin líklega mest í Langá á Mýrum síðustu daga, um miðja vikuna voru komnir 1.170 laxar úr ánni og höfðu þá veiðst um 200 laxar á nokkrum dögum. Þarna kom maðkur við sögu, en Langá er komin með hærri tölu en síðasta sumar, þá veiddust 1.014 fiskar, en þótti reyndar slakt.

Fréttir héðan og þaðan

Hafsteinn Jóhannesson sveitarstjóri í Vík sagði að veiði hefði verið dauf í Vatnsá það sem af væri, hins vegar hefði sjóbirtingur látið á sér kræla síðustu daga og þá gæti glæðst verulega á næstunni. Það er laxveiðin sem hefur verið léleg, fyrir skömmu voru aðeins tuttugu laxar skráðir í bók. "Menn hafa séð nokkuð af laxi, en hann hefur tekið djöfullega illa," sagði Hafsteinn.

Veiðimaður sem var í Elliðaánum í vikunni sagði ána "gersamlega steindauða," aðeins einn lax hefði veiðst á þrjár stangir og var þá kominn 401 lax á land. Sagði veiðimaðurinn að lax sæist varla í ánni, en vitað væri að eitthvað væri gengið upp í Elliðavatn og einnig niður í Árbæjarlón.

Dani leigir Seglbúðasvæðið

Danskur aðili er að semja við landeigendur að Seglbúðum um stóran hluta veiðidaga á svæðinu. Til þessa hefur SVFR haft helming stangardaga á móti Seglbúðabóndanum, en sá danski mun hreppa alla daga Seglbúðabóndans og "eitthvað af dögum SVFR", eins og Bergur Steingrímsson framkvæmdastjóri félagsins staðfesti aðspurður um málið. Taldi Bergur að umrætt svæði Grenlækjar færi þar með á erlendan markað.