VÍSINDAMÖNNUM hefur tekist að uppræta krabbameinsæxli í músum með algengri veiru, sem kemur krabbameinsfrumunum til að eyða sjálfum sér.

VÍSINDAMÖNNUM hefur tekist að uppræta krabbameinsæxli í músum með algengri veiru, sem kemur krabbameinsfrumunum til að eyða sjálfum sér.

Ekki er enn vitað hvort þessi aðferð dugir jafn vel við menn en rannsóknirnar varpa nýju ljósi á það, sem vísindamenn hafa lengi vitað: Sumar veirur skaða krabbameinsfrumur en vinna heilbrigðum frumum ekkert tjón.

Við tilraunirnar var notuð veira, sem talin er skaðlaus mönnum, og arfberi, sem kallast p53, en hann vinnur gegn æxlisvexti í líkamanum. Í flestum krabbameinssjúklingum er eitthvað athugavert við þennan arfbera og það er einmitt þar sem veiran kemur til skjalanna.

Hættuleg "hárspenna"

Peter Beard, prófessor í veirufræði við krabbameinsrannsóknastofnun í Epalinges í Sviss, segir, að skýringarinnar á áhrifum veirunnar sé að leita í erfðaefni hennar, í örlitlum hluta, sem líkist mest hárspennu. Þegar fundum krabbameinsfrumunnar og veirunnar ber saman túlkar fruman "hárspennuna" sem skemmd í eigin erfðaefni og reynir að losa sig við hana með þeim afleiðingum, að hún tortímir sjálfri sér.

Svissnesku vísindamennirnir sprautuðu mýs með krabbameinsfrumum, sem teknar höfðu verið úr ristli manns, og tveimur dögum síðar voru þær sprautaðar með veirunni. Útkoman var sú, að aðeins tvær af tólf músum mynduðu æxli. Þá var veiran einnig gefin músum, sem voru með ristilkrabbamein, og hún eyddi æxlunum í sex af tíu.

Skýrt var frá þessu í grein, sem birtist í vísindatímaritinu Nature í gær, og þar segir Beard, að hann og samstarfsmenn hans vonist til að finna hvað það er nákvæmlega í "hárspennunni", sem sendir krabbameinsfrumurnar í dauðann. Takist það, verði kannski unnt að beita veirunni betur eða framleiða lyf, sem líki eftir áhrifum hennar.

Um er að ræða eina af sex kunnum veirum í svokölluðum adeno-flokki en þær eru meðal þeirra smæstu, sem finnast. Hafa sumar þeirra verið notaðar til að flytja heilbrigðan arfbera til frumna í sjúkum manni en með misjöfnum árangri.

Enn langt í land

Krabbameinssérfræðingurinn Arnold J. Levine, sem fann p53-arfberann 1979 ásamt öðrum, segir, að enn sé langt í, að svissneska aðferðin verði notuð við menn. Meginvandinn við veirurnar sé hvernig eigi að koma þeim til allra krabbameinsfrumna í líkamanum. Þá sé það líka vandamál með adeno-veirurnar, að þær geti ekki fjölgað sér án hjálpar annarra veirna.

Levine kvaðst telja, að mesti ávinningurinn við rannsóknir Svisslendinganna væri sá, að nú væri ljósara en áður hvers vegna veirurnar væru svona skeinuhættar krabbameinsfrumunum.

Frank McCormick, prófessor í örveru- og ónæmisfræði við Kaliforníuháskóla í San Francisco, segir, að svissnesku rannsóknirnar séu "mjög frumlegar" en sjálfur hefur hann átt þátt í að breyta veiru, ONYX-015, sem notuð er gegn krabbameinsæxlum í mönnum. Lofa tilraunir með hana góðu. Segir hann, að nú velti á því, að unnt sé að framleiða nógu mikið af adeno-veirunni til að hægt sé að nota hana við tilraunir á fólki.

Indianapolis. AP.