TALEBANAR, hreyfing róttækra múslima sem ræður ríkjum í Afganistan, lokuðu í gær fyrir starfsemi tveggja alþjóðlegra hjálparstofnana til viðbótar, en átta kristnir hjálparstarfsmenn hafa setið í tæpan mánuð í haldi ásakaðir um að hafa drýgt þann glæp að...

TALEBANAR, hreyfing róttækra múslima sem ræður ríkjum í Afganistan, lokuðu í gær fyrir starfsemi tveggja alþjóðlegra hjálparstofnana til viðbótar, en átta kristnir hjálparstarfsmenn hafa setið í tæpan mánuð í haldi ásakaðir um að hafa drýgt þann glæp að reyna að snúa múslimum til kristni.

Báðar mannúðarstofnanirnar, sem talebanar lokuðu í gær, eiga sér kristnar rætur og í ljósi þess sem á undan er gengið þóttu þessar aðgerðir því ekki koma sérlega á óvart.

Hjálparstarfsmenn og vitni greindu frá því, að liðsmenn trúarmálalögreglu taleban-stjórnarinnar hefðu látið til skarar skríða gegn útibúum samtakanna International Assistance Mission (IAM) og Serve, sem báðar hafa haldið úti mismunandi neyðarhjálparverkefnum í hinu borgarastríðshrjáða Afganistan.

IAM, hin stærri samtakanna tveggja með aðalbækistöðvar í Bandaríkjunum, hefur staðið fyrir læknisaðstoð við nauðstadda í Afganistan í yfir 30 ár, þar á meðal starfrækt augnlækningasjúkrahús sem mikil þörf hefur verið á.

Erlent starfslið IAM og Serve í Afganistan hefur verið í kring um 50 manns, flestir frá Evrópu og Bandaríkjunum og flestir kristnir. Ekki var ljóst hvar starfsliðið væri niður komið fyrst eftir að fréttist af lokunaraðgerðum talebana í gær, en pakistanskur landamæravörður sagði sex IAM-starfsmenn hafa farið yfir landamærin nærri borginni Peshawar í norðurhluta Pakistan um miðjan dag í gær.

Snemma í ágúst handtóku talebanar 24 starfsmenn hjálparsamtakanna Shelter Now International (SNI), sem hefur aðalbækistöðvar í Þýzkalandi, vegna grunsemda um að þeir hefðu stundað trúboð. Af þessum 24 eru 16 Afganar, tveir Ástralar, tveir Bretar og fjórir Þjóðverjar.

Kabúl. AP, AFP.