SIGURÐUR Ó. Pálsson lagði á borðið mitt: a) 28. júní: "Um tónlistarkvöldið hefur umsjón." Kynning þular 1. júlí. b) "Mótið gekk snuðrulaust fyrir sig." (Úr íþróttafréttum.) c) "Þeir eru að feta í fótspor sporgöngumanna sinna.

Er ég færi ekkert lengur í letur og lamast mitt sálartetur, hvert fer ég þá, hverjum verð ég þá hjá? Er það Pokurinn eða Pétur?

SIGURÐUR Ó. Pálsson lagði á borðið mitt:

a) 28. júní: "Um tónlistarkvöldið hefur umsjón." Kynning þular 1. júlí.

b) "Mótið gekk snuðrulaust fyrir sig." (Úr íþróttafréttum.)

c) "Þeir eru að feta í fótspor sporgöngumanna sinna." (Úr sömu fréttum.)

d) (7. júlí): "Læknar ráku orsakir sjúkdómsins beint til drykkjarins." (Fréttamaður í RÚV.)

e) "Hátíðin lítur út fyrir að verða fyllilega mannbær." (Viðmælandi um þjóðlagafræði á Siglufirði.)

f) Frá öðrum: "Vegna hækkun verðsins." (Fréttir á Stöð II.)

*

Umsjónarmaður ætlar nú að leggja ofurlítið út af þeim raunalegu textum sem hér fóru á undan.

a) Ósmekkleg tvítekning er að hafa "umsjón um". Menn hafa umsjón með einhverju.

b) Því miður er sú villa orðin algeng að breyta snurðulaust í "snuðrulaust", enda er hér ekkert verið að snuðra. Snurða er samkvæmt Mergi málsins "hnökri, lítill (og harður) samsnúningur á þræði". Þekkist það vel í spuna.

Snurða er mikið notað í myndhverfum orðtökum, t.d. "Það hleypur snurða á þráðinn", en það er sagt þegar erfiðleikar, kannski óvæntir, koma upp eða ósamkomulag verður. Þess vegna geta menn líka talað um að jafna snurður = setja niður ágreining, koma á sáttum.

Þegar snurða breytist í "snuðra" er slíkt kallað hljóðavíxl (stafavíxl, metathesis).

c) Sporgöngumaður er sá sem gengur á eftir öðrum, fer í spor hans. Í fréttunum hafði merkingunni alveg verið snúið við og sporgöngumaður látið merkja fyrirrennari, forystumaður, og í spor slíkra manna er ekki nema eðlilegt að feta. [Innskot til gamans: Sögnin að feta var sterk í fornöld: Feta, fat, fátum, fetið .]

d) Þar var ruglað saman sögnunum að rekja og reka. Hin fyrri er veik: rekja, rakti, rakið, en hin síðari sterk eftir 5. röð: reka, rak, rákum, rekið. Því er það, að "læknarnir röktu orsakirnar" o.s.frv.

e) Mannbær er haft um stúlkur sem geta borið mann, eða eru orðnar kynþroska. Slíkt orð á ekki við um heilar hátíðarsamkomur.

f) Eignarfall af hækkun er að sjálfsögðu hækkunar : Þótt undarlegt megi virðast er eignarfallsendingin af orðum eins og hækkun í talsverðri hættu.

*

Hlymrekur handan kvað:

Er ég færi ekkert lengur í letur

og lamast mitt sálartetur,

hvert fer ég þá,

hverjum verð ég þá hjá?

Er það Pokurinn eða Pétur?

Og enn kvað hann:

Mælti Kristín: mér þykir frú Metta

mögnuð að leyfa sér þetta:

úti á grundu

um árdegisstundu

herra Aðalstein klæðum að fletta.

Metfé er í Orðabók Menningarsjóðs skilgreint svo: "verðmikill hlutur, úrvalsgripur, eða eitthvað sem var svo dýrmætt að meta varð það sérstaklega." Þetta er alveg í samræmi við máltilfinningu umsjónarmanns.

Í Blöndalsorðabók er þetta skýrt á dönsku: "Særlig værdigfuld Genstand el[ler] dyr..." og síðan er bætt við dæmi um óeiginlega merkingu á íslensku: "Kver þetta má kalla metfé." (Úr Eimreiðinni XVII.)

Í Orðabók Fritzners yfir fornmálið segir að metfé sé eignir sem verði að meta sérstaklega, ef þær eigi að ganga upp í gjald eða borgun.

Umsjónarmaður setur þetta á blað vegna þess að orðið hefur enn fengið nýja merkingu: fjárhæð sem er svo há að hún slær öll fyrri met. Þetta er einkum haft um gjald fyrir afburðamenn í íþróttum, t.d. við félagaskipti. Einhver leikmaður var seldur fyrir metfé. Mér þótti þetta svolítið hæpið fyrst, en ég sætti mig við það. Metfé er í sjálfu sér mjög gott orð, og merking orða hefur oft breyst í aldanna rás, enda má tunga okkar ekki verða steingervingur, þótt við vöndum hana og verjum.

*

Goðafoss grjóti ryður,

glymjandi klettar rymja,

þröng hefur þar hinn strangi

þungfær á bjarga klungri.

Þúsund naut þó að geysi,

þar með öll hamra tröllin,

yfir þó eins hann gnæfir

öskur svo mönnum blöskrar.

(Gunnar Pálsson 1714-1791.)

*

Auður var vegskona mikil. Þá er hon var ellimóð, bauð hon til sín frændum sínum og mágum og bjó dýrliga veislu; en er þrjár nætur hafði veislan staðið, þá valdi hon gjafir vinum sínum og réð þeim heilræði; sagði hon, að þá skyldi standa veislan enn þrjár nætur; hon kvað það vera skyldu erfi sitt. Þá nótt eftir andaðist hon og var grafin í flæðarmáli, sem hon hafði fyrir sagt, því að hon vildi eigi liggja í óvígðri moldu, er hon var skírð.

(Um Auði djúpúðgu,dóttur Ketils flatnefs.)

Vilfríður vestan kvað:

Drekktu, Dómhildur mín,

dansaðu og vertu fín;

það huga þinn kætir

og heilsuna bætir,

vodka, brennivín.