TAP varð af rekstri samstæðu Kaupfélags Eyfirðinga, KEA, á fyrri hluta ársins sem nam 439 milljónum króna. Þetta er 815 milljóna króna lakari afkoma en á sama tímabili í fyrra, en þá skilaði samstæðan 376 milljóna króna hagnaði.

TAP varð af rekstri samstæðu Kaupfélags Eyfirðinga, KEA, á fyrri hluta ársins sem nam 439 milljónum króna. Þetta er 815 milljóna króna lakari afkoma en á sama tímabili í fyrra, en þá skilaði samstæðan 376 milljóna króna hagnaði.

Reiknaður tekjuskattur að fjárhæð 111 milljónir króna er tekjufærður vegna tímabilsins og nemur tap félagsins af reglulegri starfsemi fyrir skatta og hlutdeild minnihluta 551 milljón króna en nam 430 milljónum á síðasta ári. Afkoman fyrir skatta hefur því dregist saman um 981 milljón króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, er þó nánast óbreyttur milli ára, eða um 194 milljónir króna. Rekstrartekjur samstæðunnar námu rúmum 2,4 milljörðum króna og rekstrargjöld fyrir afskriftir og vexti námu 2,3 milljörðum. Í samanburði við samsvarandi rekstur félagsins í fyrra er hækkun tekna og gjalda ríflega 11%. Fjármagnsliðir hækkuðu á milli ára um 480 milljónir króna ef frá eru talin áhrif af sölu hlutabréfa á fyrra ári.

Eigið fé KEA var í júnílok 2,8 milljarðar króna en var um áramót tæpir 3,3 milljarðar og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 30,5%. Veltufé frá rekstri var neikvætt um 446 milljónir króna á fyrri hluta ársins en var jákvætt um 71 milljón á sama tímabili í fyrra.

Skýringar á verri heildarafkomu félagsins liggja að stærstum hluta til í neikvæðri þróun á fjármagnsmörkuðum á tímabilinu, að því er segir í tilkynningu, gengisfalli íslensku krónunnar, hækkun vaxta og lítt virkum hlutabréfamarkaði.

Ennfremur kemur fram að nú standi yfir endurskipulagning á starfsemi Norðlenska ehf., en sem kunnugt er yfirtók félagið fyrrum kjötvinnslur Goða hf. Í tilkynningu KEA segir að það gefi félaginu aukna möguleika til að bæta afkomu sína verulega. Þá sé unnið við frágang á endurfjármögnun KEA og dótturfélaga sem bæta mun langtímaskuldastöðu samstæðunnar.