Hrannar B. Arnarsson, forseti Skáksambands Íslands, setti Skákþingið með formlegum hætti í gær í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði.  Bragi Þorfinnsson skákmeistari bíður átekta.
Hrannar B. Arnarsson, forseti Skáksambands Íslands, setti Skákþingið með formlegum hætti í gær í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Bragi Þorfinnsson skákmeistari bíður átekta.
Á SKÁKÞINGI Íslands sem sett var í gær gerist það í fyrsta sinn að kona keppir í landsliðsflokki um titilinn Skákmeistari Íslands árið 2001, en einnig er keppt í kvennaflokki á þinginu.

Á SKÁKÞINGI Íslands sem sett var í gær gerist það í fyrsta sinn að kona keppir í landsliðsflokki um titilinn Skákmeistari Íslands árið 2001, en einnig er keppt í kvennaflokki á þinginu. Í landsliðsflokki tefla að þessu sinni 10 skákmenn og meðal þeirra er tékkneska skákkonan Lenka Ptacnikova sem er stórmeistari kvenna og vann sér keppnisrétt með góðri frammistöðu í áskorendaflokki fyrr á árinu. Auk hennar eru meðal keppenda flestir af núverandi landsliðsmönnum þjóðarinnar og svo ungir og efnilegir skákmenn sem hafa verið að gera góða hluti.

Sex konur í kvennaflokki

Hrannar B. Arnarsson, forseti Skáksambands Íslands, segir að hægt sé að verða sér úti um þátttökurétt með ýmsu móti. "Fjórir sem voru efstir síðast vinna sér keppnisrétt, þrír stigahæstu menn landsins og síðan þeir sem eru í tveimur efstu sætunum í áskorendaflokki. Lenka var þar í öðru til þriðja sæti en vann síðan einvígi við Pál Agnar Þórisson, sem deildi því með henni," sagði hann og taldi Lenku vel að því komna að fá að taka þátt í landsliðsflokki.

Í kvennaflokki tefla sex skákkonur og eru meðal keppenda flestar af núverandi landsliðskonum þjóðarinnar auk þess sem Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mætir til leiks eftir nokkurra ára hlé. Guðfríður Lilja er alþjóðlegur meistari kvenna og hefur 9 sinnum hampað íslandsmeistaratitli kvenna í skák, oftar en nokkur önnur.

Hrannar segir Skákþingið ekki síður verða forvitnilegt vegna kynslóðaskipta sem nú eigi sér stað í íslensku skáklífi, því um leið og eldri stórmeistarar stígi af sviðinu skapist sóknarfæri hjá yngri skákmönnum.

Skákþingið er haldið í Hafnarfirði og stendur til 8. september. Keppnin ferfram í íþróttahúsinu við Strandgötu og segir í tilkynningu Skáksambands Íslands að reikna megi með afar spennandi og skemmtilegri keppni enda sé iðulega hart barist um Íslandsmeistaratitlana í skák. Taflmennskan hefst daglega klukkan fimm, nema í síðustu umferð þegar hún hefst klukkan eitt. Áhorfendur eru velkomnir á mótsstað, en hægt verður að fylgjast með skákum beint á netinu í gegnum heimasíðu Skáksambandsins og hjá ICC (www.chessclub.com). Á heimasíðu skákmanna, skak.is, er hægt að taka þátt í getraun og giska á hverjir verði í fimm efstu sætunum að keppni lokinni auk þess að nálgast frekari upplýsingar um keppnina.