ÞAÐ hefur lengi verið siður foringja stjórnmálaflokka hér á landi að vilja drottna yfir alþingismönnum síns eigin flokks.

ÞAÐ hefur lengi verið siður foringja stjórnmálaflokka hér á landi að vilja drottna yfir alþingismönnum síns eigin flokks. Ég nefni nokkur dæmi þess: Fyrst skal fræga telja Jónas frá Hriflu, Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason, Ólaf Thors, Bjarna Benediktsson, Davíð Oddsson, Hannibal Valdimarsson, Jón Baldvin Hannibalsson og Össur Skarphéðinsson. Ekki má gleyma Halldóri Ásgrímssyni. Fleiri má sjálfsagt nefna, en ég læt þetta nægja. Þessir menn hafa allir litið á sig sem smákónga, hver í sínum þingflokki, og unað því illa ef þingmenn í þeirra flokki greiddu atkvæði gegn þeirra vilja. Þó hafa nokkrir þingmenn sem ekki voru sammála forustunni leyft sér þann munað að fara frekar eftir samvisku sinni og skal ég nefna þar tvo sem mér eru minnisstæðastir, en það voru Pétur Ottesen og Páll Zófóníasson. En auðvitað man ég eftir mörgum fleiri sem fetað hafa í fótspor þeirra. Nú nýlega sá ég stutt viðtal í Morgunblaðinu við alþingismann sem sagði að ef Siv Friðleifsdóttir úrskurðaði samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar í Kárahnjúkavirkjunarmálinu þá væri hún pólitískt dauð. Ég vona að hún fari eftir sannfæringu sinni og láti ekki hótanir hræða sig. Að mínu áliti er hún fyrsti umhverfisráðherra sem hefur gegnt því embætti með fullri reisn og skörungsskap. Stuttu eftir að úrskurður Skipulagsstofnunar var birtur komu þeir Davíð og Halldór fram í Sjónvarpinu og sögðu að ef Siv féllist á þennan úrskurð hótuðu þeir að taka ekkert mark á því og halda af fullum krafti áfram undirbúningi og setja í haust lög á Alþingi sem felldu úrskurðinn úr gildi. Þetta finnst mér minna helst til mikið á stjórnarathafnir í einræðisríkjunum. Mér hefur alltaf litist illa á þetta virkjunarbrölt. Í fyrsta lagi hvað þetta er gífurlega dýrt. Í öðru lagi þau gríðarlegu landspjöll sem uppistöðulónin valda, að þar fari undir vatn 47 ferkílómetrar af grónu landi og það gríðarlega landflæmi sem fer undir sand og leirfok, það er óbætanlegt og verður ekki grætt upp aftur, og allt láglendið meðfram Lagarfljóti. Lagarfljót hefur af mörgum veriði talið höfuðprýði Fljótsdalshéraðs, en verður ljótur forarpollur ef af virkjun verður. Þá er hugsanlegt að Egilsstaðaflugvöllur fari í kaf a.m.k. í miklum vatnavöxtum. Í júnímánúði vorið 1995 fór Egilsstaðanesið undir vatn og einhver tæki sem varða flugvöllinn urðu óvirk. Mér dettur í hug hvort það hefur verið kannað hvort ekki væri hugsanlegt að virkja í einum eða tveimur áföngum Jökulsá á Dal eins og til dæmis hefur verið gert við Þjórsá ef það gæti orðið til að sætta þennan ágreining. Ég hef ekkert vit á því en vatnið færi í farveg Jökulsár á Dal.

Í dag, 10. ágúst, birtist grein í Morgunblaðinu varðandi Kárahnjúkavirkjun eftir Jón Ólafsson haffræðing hjá Hafrannsóknastofnun. Í stuttu máli segir hann að búast megi við að kaldsjávarstraumurinn færist talsvert nær Austfjörðum og þá verði 10 til 12 fleiri þokudagar á Austfjörðum að sumrinu, flestum finnst þeir þó nógu margir. Það gæti gert bændum á Austfjörðum lífið leitt um heyskapartímann. Ég hafði ekki tekið eftir þessu í fréttum fyrr. Ekki verður það til að auka vinsældir þessara framkvæmda.

Ég hef orðið var við að ýmsir sem voru jákvæðir varðandi þessa framkvæmd í fyrra hafa snúist gegn þeim nú í sumar. Í þriðja lagi vil ég benda á að Landsvirkjun vill ekki gefa upp hvaða verð hún fær fyrir hverja kílówattsstund og ekki heldur hvort hún hugsar sér að semja jafnheimskulega og gert var við álverið í Straumsvík, það er að segja, að ef álverðið lækkar á heimsmarkaðinum, lækki verðið á raforkunni hlutfallslega tilsvarandi. Mér finnst fráleitt að taka þá áhættu. Hvað eru þeir að fela? Ég vil leyfa mér að gagnrýna harðlega að lagt hefur verið í gífurlegan kostnað áður en búið er að gera bindandi samning við Norsk Hydro um öll stærstu atriðin. Hver á að greiða þann kostnað til baka? Á hverjum lendir hann? Þessi vinnubrögð munu vera einsdæmi í Íslandssögunni og vonandi að engin ríkisstjórn vogi sér að leika það eftir. Að lokum. Utanríkisráðherra hefur nærri allt þetta kjörtímabil rekið markvissan áróður fyrir því að Íslendingar gangi í ESB og sjálfstæðismenn, að minnsta kosti Davíð Oddsson, lýstu því yfir eftir síðustu kosningar að ESB-málið væri ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili, en nú lætur hann eins og hann sjái ekkert athugavert við þetta brölt í Halldóri. Finnst ykkur þetta vera trúverðugir flokksformenn? Framsóknarmenn hafa í tveimur síðustu kosningum lýst því yfir að þeir væru eindregið á móti frekari einkavæðingu en samt hafa framsóknarmenn látið smátt og smátt undan kröfum Sjálfstæðisflokksins og hann hefur gengið á lagið. Formaður Framsóknarflokksins er alveg hissa á fylgistapi flokksins. En ég skal segja honum mína skoðun á því. 1. Barátta hans fyrir inngöngu í ESB. 2. Kárahnjúkavirkjun. 3. Einkavæðingin. Ég tek það fram að ég er alveg ókunnugur inni á hálendinu en ég spyr hvort báðir aðilar gætu ekki sætt sig við að virkja Jökulsá á Dal. Þó sú virkjun yrði mun minni og þar með álverksmiðjan að sjálfsögðu. Hefur þessi möguleiki verið kannaður?

SIGURÐUR LÁRUSSON,

Árskógum 20b, Egilsstöðum.

Frá Sigurði Lárussyni: