Helena Jónsdóttir.
Helena Jónsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helena Jónsdóttir er einn færustu dansara og danshöfunda sem Íslendingar geta státað af. Birta Björnsdóttir hitti hana og fékk að fræðast um dansinn, kvikmyndagerð og tónlistarmyndbandið sem hún var að vinna að.

ÞAÐ BAR til tíðinda á dögunum að Helena Jónsdóttir var tilnefnd til hinna eftirsóttu MVPA-verðlauna í Los Angeles fyrir bestu danshönnun í myndbandi hljómsveitarinnar Bentley Rythm Ace. Íslenskur danshöfundur hefur ekki áður komist í hóp þeirra bestu á þessum vettvangi og lék blaðamanni forvitni á að vita hvernig það kom til að hún var upphaflega fengin til samstarfs í þessu verkefni.

"Það var hringt í mig frá innlendu fyrirtæki, Pan Artica, Ástu Hrönn Stefánsdóttur, sem sagði mér að hér væri staddur maður að nafni Garth Jennings hjá Hammer and Tongs, sem er framleiðslufyrirtæki í London, ásamt samstarfsmönnum til að skoða tökustaði," segir Helena.

"Þeir höfðu verið að leita að danshöfundum úti í Englandi og annars staðar í Evrópu. Þeir notuðu tækifærið fyrst þeir voru staddir á landinu og fengu að sjá það sem ég hef verið að gera og leist það vel á efnistökin að ég var ráðin í starfið."

Umrætt myndband er við lag Bentley Rythm Ace, "Theme from Gutbuster.""Þetta er svona skemmtileg delluhugmynd og fjallar um lítinn eskimóa sem er á leið á veiðar á ísbreiðu," upp lýsir Helena um söguþráð myndbandsins.

"Þegar hann strýkur snjóinn af ísnum sér hann hljómsveitina frosna þar undir. Hann reynir að brjóta ísinn án árangurs, þar til vélsleðasendill réttir honum heyrnatól með ákveðinni tónlist í. Þá er ekki að sökum að spyrja; hitinn í eskimóanum fer upp úr öllu valdi og hann bræðir ísinn "med det samme.""

Tilnefningin mikill heiður

Helena var á dögunum tilnefnd til MVPA-verðlaunanna í flokki danshöfunda í tónlistarmyndböndum. MVPA-verðlaunin eru þau stærstu í iðnaðinum að MTV-verðlaununum frátöldum. Þau eru þó talsvert frábrugðin MTV-verðlaununum að því leyti að fagfólki eru veitt verðlaunin sem tónlistarmennirnir sjálfir tækju annars á móti. Áhersla er lögð á að þeir sem vinna að myndböndunum bak við tjöldin fái viðurkenningu fyrir verk sín.

Helena var ekki viðstödd verðlaunaafhendinguna en fékk þær fregnir frá aðstandendum hátíðarinnar að henni hefði verið vel fagnað þegar hinir tilnefndu voru lesnir upp. Með sigurorð í flokknum fóru danshöfundarnir í myndbandi Fatboy Slim við lag hans "Weapon of Choise" sem sýnir leikarann Christhoper Walken taka sporið.

Hafa tilnefningar á borð við þessa mikla þýðingu fyrir danshöfunda?

"Ja, ef þú kíkir á hina danshöfundana sem eru þarna á listanum þá er þetta mikill heiður. Í þessum flokki eru fengnir helstu leikstjórar, kvikmyndatökumenn og annað atvinnufólk til að vera í dómnefnd. Það er auðvitað mjög gaman að það fólk kunni vel að meta það sem maður er að gera."

Hefur komið víða við

Helena segir undirbúninginn fyrir upptökur hafa verið langan og strembinn.

"Við vildum ekki fara of langa leið til að sýna danskunnáttuna eins og dansarar vilja oft gera með hoppum og stökkum. Hugsunin á bakvið þetta er að strákurinn lítur bara út fyrir að vera að leika sér en það er eitt af því sem ég hef verið að fást við. Við getum öll dansað."

Hefur þú fengist mikið við dans áður?

"Já, ætli það sé ekki óhætt að segja það," svarar Helena að bragði.

"Ég er upphaflega menntuð í Listdansskóla Þjóðleikhússins og hef meðal annars starfað þar og í Borgarleikhúsinu, hjá Sjónvarpinu, Stöð 2 og öðrum sjónvarpsstöðvum sem voru í gangi á sínum tíma. Einnig með áhugaleikhópum og í Kaffileikhúsinu og bara úti um allt. Nefndu staðinn og ég hef verið þar. Mér finnst rosalega gaman að vinna með ólíku fólki með áhugavert efni og safna í reynslubanka. Mér finnst líka gaman að fá að vera danshöfundur í einu verki, dansari í því næsta og svo framvegis. Að fá að prófa ólík hlutverk."

Er einhver tegund af dansi sem heillar þig meira en önnur?

"Já, nútímadans, sem er auðvitað ákaflega vítt hugtak en inniheldur það sem mér finnst áhugaverðast. Það sem ég er mest í í dag er svokallaður "realism"-dans. Þá tek ég þessar litlu hreyfingar okkar til athugunar. Ég gæti til dæmis tekið mynd af þér við að taka þetta við tal og svo ráðið sex dansara og látið þá gera nákvæmlega sömu hreyfingar og þú. Dans er eins og tungumál, það eru til svo ótal mörg afbrigði af honum."

Rauðar rútur

Helena er með mörg járn í eldinum og er upp á síðkastið farin að einbeita sér að kvikmyndagerð.

Stuttmyndin Rauðar rútur, sem hún vann í samvinnu við Hálfdán Theódórsson, hafnaði í öðru sæti á Stuttmyndadögum í Reykjavík nú í sumar.

"Það var eiginlega mín frumraun. Ég sendi þrjár myndir, aðallega til að sjá hvernig þær kæmu út á stóru tjaldi. Í framhaldi af því er ég að fara vinna myndbandsverk fyrir Listahátíðina næsta vor. Ég vinn verkið ásamt Þorvaldi Þorsteinssyni og Skúla Sverrissyni í samvinnu við Íslenska dansflokkinn. Ég er auðvitað alger græningi í kvikmyndagerð en hef unnið mikið í sjónvarpi sem dansari og danshöfundur og fylgst vel með fagmönnum að verki og auðvitað lærir maður af því."

Innan skamms verður sýnd stuttmynd eftir Helenu á kvikmyndahátíðinni Dance For Camera sem fram fer í Ósló.

"Myndin heitir An other og er þriggja mínútna löng. Ég sé um klippingu, leikstjórn og hljóð í henni. Myndin fékk undantekningu á hátíðinni en hún er eina myndin sem ekki er tekin á filmu, en það var skilyrði fyrir þátttökunni. Þetta er fyrsta íslenska myndin sem tekið hefur þátt í þessari hátíð og það er auðvitað mjög gaman."

En hvað er svo framundan hjá þér?

"Ég ætla að fara til útlanda í byrjun október. Þar ætla ég að njóta þess að rækta minn eigin garð enn frekar, maður er búinn að vera svo lengi að vinna fyrir aðra. Ég var svo heppin að fá listamannalaun þannig að ég fæ sex mánaða frið til að sinna því sem ég vil gera. Kannski kem ég heim ákveðnari en nokkru sinni í að vinna sem danshöfundur og kvikmyndagerðarmaður og kannski legg ég fyrir mig ræstitækni, skipti alveg um. Það kemur bara í ljós."