Hjörtur Jónsson og Ísak Guðjónsson velta bíl sínum illa á sérleiðinni um Gunnarsholt í gær.
Hjörtur Jónsson og Ísak Guðjónsson velta bíl sínum illa á sérleiðinni um Gunnarsholt í gær.
FEÐGARNIR Rúnar Jónsson og Jón Ragnarsson á Subaru Impreza bættu við forskot sitt í alþjóðlega rallinu, Rally Reykjavík, í gær og hafa nú rúmlega þriggja og hálfrar mínútu forskot á Sigurð Braga Guðmundsson og Rögnvald Pálmason á MG Metro. Í þriðja sæti eru þeir Hjörleifur Hilmarsson og Jón Þór Jónsson á MMC Lancer og á eftir þeim í fjórða sæti koma Baldur Jónsson og Arnar Valsteinsson á Subaru Legacy. Fimmtu koma síðan Gunnar Viggósson og Björn Ragnarsson á Ford Escort.

Hjörtur og Ísak ætluðu að bæta sína stöðu frá því á fyrsta degi keppninnar eftir að hafa verið í fimmta sæti en náð að vinna sig upp í það þriðja þegar ekki vildi betur en svo þegar þeir voru hálfnaðir á sérleið um Gunnarsholt að þeir veltu bifreið sinni tvær veltur. Þeir náðu að klára leiðina og gera við bílinn í hádegishléi en för þeirra endaði ekki vel á Lyngdalsheiðinni þegar þeir veltu bifreið sinni í annað sinn og urðu að hætta keppni. "Við vorum búnir að keyra mjög greitt, vægast sagt, þegar við förum aðeins of hratt yfir eina hæðina. Við förum út af veginum og endum á toppnum," sagði Ísak eftir að bíllinn var kominn á réttan kjöl.

Rúnar ók meistaralega á meðan bróðir hans, Baldur, átti í miklum vandræðum með bifreið sína á Gunnarsholtsleið og tapaði þar rúmlega sex mínútum gagnvart Rúnari. "Eftir hádegið var komin upp sú staða að við vorum komnir með mjög gott forskot sem gerði það að verkum að við slökuðum aðeins á og fórum að hlífa bílnum meira," sagði Rúnar eftir langan keppnisdag í gær. "Við gáfum okkur góðan tíma til að keyra leiðirnar af miklu öryggi. Við gáfum reyndar vel í á leiðinni upp Dómadal og náðum þá að auka forskotið töluvert og síðan eftir það höfum við bara verið að dóla okkur, svona innan gæsalappa. Það eru langar og erfiðar leiðir á morgun og það þarf að fara varlega," sagði Rúnar sem er kominn með aðra hönd á Íslandsmeistaratitilinn. Í dag hefst keppni að nýju á sérleið um Tröllháls og Kaldadal en henni lýkur eftir hádegi á sérleið um Ísólfsskála og Djúpavatn.

Gunnlaugur Einar Briem skrifar