*½ Leikstjórn og handrit Thomas Bohr. Aðalhlutverk Dennis Hopper, Heino Ferch. (85 mín.) Þýskaland 1999. Bergvík. Bönnuð innan 16 ára.

ÞESSI mjög svo formúlukennda þýska sakamálamynd virkar á mann eins og miðlungsmerkilegur Derrick-þáttur eða Lögregluhundurinn Rex. Það verður líka að segjast að Horst Tappert, sem lék yfirlögregluvarðstjórann Derrick í 24 ár, er miklu trúverðugri krimmabani en gamli dóphausinn hann Dennis Hopper, og reyndar hundurinn sem leikur Rex líka. Maður sér lhöfunda myndarinnar fyrir sér þegar þeir kynna hana fyrir fjárfestum: "Þetta er svona Easy Rider mætir Lögregluhundinum Rex, með nettri Jackal-fléttu." Steinliggur - ekki.

En að útúrsnúningi slepptum þá er furðulegt að horfa upp á evrópska kvikmyndagerðarmenn rembast við að búa til kvikmyndir eftir Hollywood-formúlunni og fá allt að því útbrunna útsöluleikara til að leika í von að pakkinn verki betur á þá sem annars líta ekki við "erlendum myndum".

Skarphéðinn Guðmundsson