HVASST suðaustanrok kom í veg fyrir að ungmennalið Íslands og Tékklands næðu að sýna sínar betri hliðar þegar liðin mættust í undankeppni EM í Grindavík í gærkvöldi. Samt sáust ágætar hliðar - Tékkar spiluðu af öryggi á meðan Íslendingar börðust af miklum krafti. Með rokið í bakið réð hvort lið yfir einum hálfleik en sókn Tékka eftir hlé var þyngri enda uppskáru þeir eina mark leikins - 1:0 fyrir Tékkland.

Hvort lið fékk ágætt færi á fyrstu tíu mínútunum en síðan fóru sóknir Íslendinga, með rokið í bakið, að þyngjast. Þeim gekk samt ekki að spila sig upp að marki og því dundu skotin að marki Tékka, sérstaklega um miðjan hálfleik en án árangurs. Tékkar aftur á móti reyndu að fikra sig framar á völlinn með varfærnu spili en gekk það fremur illa þar til leið að hálfleik en Ómar Jóhannsson markvörður var mjög vel á verði.

Eftir hlé snerist taflið algerlega við og á 25 fyrstu mínútunum komust Íslendingar tvívegis upp að vítateig gestanna. Hinum megin höfðu varnarmenn Íslands nóg að gera, ekki síst Ómar markvörður. Til dæmis small boltinn í slá og stöng íslendinga en eftir tvær hornspyrnur á 72. mínútu skoraði Martin Viránek mark Tékka þegar hann skallaði boltann yfir Ómar í markinu. Rétt fyrir markið voru Íslendingar farnir að spila sig framar á völlinn og eftir markið gerðust þeir enn djarfari. Tékkar máttu gjöra svo vel að bakka upp í rokið en sluppu fyrir horn þegar Ísland var tvisvar nærri því að skora á síðustu mínútunum.

"Ég var ósáttur við að ná ekki stigi út úr þessu en aðstæður voru erfiðar og ég get því verið ánægður með hvernig leikurinn þó var en við hefðum þurft að fara með eitt mark í leikhlé," sagði Sigurður Grétarsson, þjálfari íslenska liðsins, eftir leikinn. "Í fyrri hálfleik hefði ég viljað sjá fleiri skot á marki og örlítið meiri grimmd en við komum betur inn í leikinn undir lokin og náðum að skapa okkur ágætis færi. Strákarnir lögðu sig fram og gerðu sitt besta og það verður að hafa í huga að þeir voru á spila á móti mjög sterku liði. Hjá nokkrum í okkar liði vantar meiri hraða ásamt meiri tækni en hugurinn er alveg í lagi og ekki vantar baráttuna," sagði Sigurður.

Þjálfari Tékka var sáttur við eins marks sigur miðað við aðstæður. "Ég sá íslenska liðið leika við Búlgara og vissi að það var sterkt.. Liðið spilaði nú af krafti og breytti um frá síðasta leik en hvorugt liðið gat spilað góða knattspyrnu í þessum vindi. Við áttum ekki von á svona vindi svo að við breyttum um leikaðferð - færðum okkar aftur á móti vindinum og eftir hlé settum við meiri pressu á þá og skutum meira," sagði Karel Bruckner, þjálfari Tékka.

Erfitt er að meta frammistöðu leikmanna vegna roksins. Varnarmenn stóðu fyrir sínu lengi vel en áttu undir högg að sækja í lokin, sérstaklega Ómar markvörður en hann átti mjög góðan leik. "Vindurinn var mjög leiðinlegur og gerði þetta erfitt en við höfðum gott tak á þeim í fyrri hálfleik og þeir áttu varla færi þá," sagði Stefán Gíslason en hann átti prýðisleik á miðjunni. "Svo áttum við nokkur hálffæri eftir hlé en mér fannst Tékkarnir betri. Þeir hafa góða tækni og halda boltanum en eru greinilega óvanir svona veðri og tókst engan veginn vel upp í dag." Í framlínuna vantaði ekki viljann og baráttuna en oft hefði mátt vera minna kapp en meiri forsjá. Bjarni Guðjónsson gerði oft vel.

Stefán Stefánsson skrifar