*ELÍSABET Gunnlaugsdóttir varði doktorsritgerð í stærðfræði við háskólann í Montpellier í Frakklandi, Université Montpellier II., þann 3. júlí síðastliðinn. Ritgerðin heitir á frummálinu "Structure monoidale de la catégorie des uq+(sl2)-modules.
*ELÍSABET Gunnlaugsdóttir varði doktorsritgerð í stærðfræði við háskólann í Montpellier í Frakklandi, Université Montpellier II., þann 3. júlí síðastliðinn. Ritgerðin heitir á frummálinu "Structure monoidale de la catégorie des uq+(sl2)-modules." ("Mynstur eininga í ríki uq+(sl2) mótla").

Ritgerðin fjallar um útsetningafræði í skammtahálfgrúpunni uq+(sl2) fyrir einingarrætur. Þetta er Hopfalgebra, sem ekki er hálf-hjávíxlin. Með því að leiða út þáttunarformúlur er þó sýnt fram á að þinfeldi tveggja endanlega víðra mótla sé víxlið. Lausnin er fengin með tveimur aðferðum.

Leiðbeinandi Elísabetar var Claude Cibils, Université Montpellier II.

Andmælendur í doktorsvörn Elísabetar voru William Chin, De Paul University, Chicago, Guy Laffaille, Université Montpellier II, Manolo Saorin, Universidad de Murcia, Spáni, og Iain Gordon, Universty of Glasgow.

Elísabet er fædd 4. ágúst 1973. Hún lauk stúdentsprófi á eðlisfræðibraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vorið 1992. Hún innritaðist í stærðfræði við Université Montpellier II haustið 1992 og útskrifaðist þaðan með doktorsgráðu 3. júlí síðastliðinn, eins og fyrr segir, með umsögninni "Très honorable." Umfjöllun um doktorsritgerð Elísabetar mun bráðlega birtast í stærðfræðiritinu "Linear Algebra and its Applications." Elísabet er dóttir hjónanna Ragnheiðar Þormar frá Geitagerði í Fljótsdal og Gunnlaugs Sigurðssonar frá Hallormsstað. Sambýlismaður hennar er Pierre Mounoud . Börn þeirra eru Clara Alexandra og Ulysse Guttormur. Pierre varði doktorsritgerð í stærðfræði við sama skóla daginn eftir Elísabetu, 4. júlí.