BORGARRÁÐ hefur samþykkt verulegar breytingar á stjórnskipulagi á sviði umhverfis- og tæknimála og skipulags- og byggingarmála þar sem m.a. er gert ráð fyrir að stofnuð verði tvö ný svið; umhverfis- og tæknisvið og skipulags- og byggingarsvið.

BORGARRÁÐ hefur samþykkt verulegar breytingar á stjórnskipulagi á sviði umhverfis- og tæknimála og skipulags- og byggingarmála þar sem m.a. er gert ráð fyrir að stofnuð verði tvö ný svið; umhverfis- og tæknisvið og skipulags- og byggingarsvið. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn tillögunum og telja breytingarnar m.a. fela í sér aukna yfirbyggingu og ekki til þess fallnar að gera stjórnsýslu borgarinnar á vettvangi skipulags- og byggingarmála skilvirkari.

Samkvæmt tillögunum sem samþykktar voru verða ráðnir yfirmenn þessara nýju sviða og mun núverandi borgarverkfræðingur gegna stöðu sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs sem hefur yfirumsjón með framkvæmdum og rekstri á sviði byggingarmála, gatna- og umferðarmála og umhverfismála. Þær deildir sem nú heyra undir embætti borgarverkfræðings munu falla undir þetta svið að embætti byggingarfulltrúa frátöldu.

Samkvæmt nýja skipulaginu verður sett á fót sérstök stofnun fyrir umhverfismál, Umhverfis- og heilbrigðisstofa, sem tekur að sér núverandi verkefni garðyrkju, heilbrigðiseftirlits og hreinsunardeildar auk annarra verkefna á sviði umhverfismála, s.s. Staðardagskrá 21, grænt bókhald og náttúruvernd.

Jafnframt verður sett á stofn sérstök áætlanadeild sem annast núverandi verkefni umferðardeildar borgarverkfræðings, svo sem umferðaröryggismál, umferðartalningar, umferðarspár o.s.frv.

Embætti borgararkitekts stofnað í tilraunaskyni

Þá er stefnt að því að koma á fót Fasteignastofu Reykjavíkur um næstu áramót sem sjá mun um rekstur fasteigna í eigu borgarinnar og viðhald þeirra. Einnig verður stofnaður sérstakur skipulagssjóður til að sjá um kaup og sölu á fasteignum og einstökum lóðum sem keyptar eru af skipulagsástæðum. Þessar stofnanir munu tilheyra umhverfis- og tæknisviði.

Embætti skipulagsstjóra verður lagt niður og þess í stað ráðinn sviðstjóri skipulags- og byggingarsviðs sem hefur yfirumsjón með þeim málaflokkum sem nú heyra undir Borgarskipulag og embætti byggingarfulltrúa. Á því sviði verður stofnað embætti borgararkitekts í tilraunaskyni til tveggja ára sem heyrir undir sviðsstjóra og verður núverandi skipulagsstjóri ráðinn til að gegna embætti borgararkitekts. Hann mun vinna að stefnumótun sem lýtur að yfirbragði og útliti borgarinnar.

Skipulagsbreytingarnar munu taka gildi um næstu áramót og verður nú þegar auglýst eftir sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs og forstöðumanni umhverfis- og heilbrigðisstofu.

Ákvörðunin alvarlegt skref aftur á bak

Í greinargerð með tillögum að skipulagsbreytingunum kemur fram að markmiðið með þeim sé að deildir og stofnanir, sem vinna að framgangi stefnu sem mótuð er af tiltekinni nefnd, sameinist eða vinni sem nánast saman. Fyrirkomulagið auðveldi vinnu viðkomandi nefnda og geri ábyrgð stjórnsýslunnar á framkvæmd pólitískrar stefnumótunar skýrari. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á verkaskiptingu nefnda og embættismanna.

Að öðru leyti eru markmiðin með breytingunum m.a. að efla stjórnsýslu borgarinnar á sviði umhverfismála og auka vægi málaflokksins í stjórnkerfinu, að styrkja og einfalda stjórnsýslu á sviði skipulags- og byggingarmála, bæta kostnaðar- og áætlanagerð á sviði skipulagsmála og ná fram sparnaði og hagræðingu með heildstæðari rekstri fasteigna borgarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýndu fyrirhugaðar skipulagsbreytingar harðlega á borgarráðsfundi á þriðjudag og töldu engin efnisleg rök hafa komið fram sem sýni hagræðingu eða stjórnunarlegan ávinning af breytingunum. Í bókun fulltrúanna segir að með breytingunum verði Borgarskipulag svipt faglegu sjálfstæði og embætti skipulagsstjóra, sem heyrt hafi beint undir borgarstjóra, verði lagt niður. "Þessi ákvörðun er alvarlegt skref aftur á bak og óskiljanlegt í ljósi þess að á undanförnum 20 árum hefur verið unnið að því að efla faglegan þátt þessarar stofnunar, sem hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna í skipulags- og byggingarmálum borgarinnar," segir í bókuninni.

Ágreiningurinn endurspeglar óvenjulega íhaldssemi

Þá telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks breytingar á embætti borgarverkfræðings óraunhæfar og að allan rökstuðning fyrir gagnsemi breytinganna vanti og segja það vekja sérstaka athygli að undirbúningur þessara viðamiklu breytinga sé ekki unninn í samráði við stjórnkerfisnefnd.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagði í bókun sinni á borgarráðsfundinum óskiljanlegt væri með öllu að því skyldi haldið fram af sjálfstæðismönnum að verið sé að svipta Borgarskipulag sjálfstæði sínu og gera skipulagsmál hornreka í borgarkerfinu. "Í raun er það harla sérkennilegt að sjálfstæðismenn skuli reyna að gera pólitískan ágreining úr því einu að verið sé að endurskoða stjórnskipulag sem færa má rök fyrir að hafa verið óbreytt alltof lengi. Slíkur ágreiningur endurspeglar óvenjulega íhaldssemi," sagði borgarstjóri.