Flestar konur kjósa að hætta að reykja á meðgöngu.
Flestar konur kjósa að hætta að reykja á meðgöngu.
UNGBARN virðist tvöfalt líklegra til að fá magakveisur á fyrstu mánuðum ævi sinnar ef móðir þess reykti 15 eða fleiri sígarettur á dag á meðan hún gekk með barnið, að því er fram kemur í niðurstöðum danskrar rannsóknar.

UNGBARN virðist tvöfalt líklegra til að fá magakveisur á fyrstu mánuðum ævi sinnar ef móðir þess reykti 15 eða fleiri sígarettur á dag á meðan hún gekk með barnið, að því er fram kemur í niðurstöðum danskrar rannsóknar. Niðurstöðurnar eru birtar í ágústhefti tímaritsins Pediatrics.

Vísindamennirnir rannsökuðu 1.820 mæður og ungbörn þeirra með tilliti til þess hvort mæðurnar reyktu og hvort börnin þjáðust af magakveisu. Ellefu prósent barnanna þjáðust af kveisunni en hlutfallið tvöfaldaðist þegar reyklausar mæður og börnin þeirra voru skilin frá. Niðurstöðurnar breyttust ekkert þegar búið var að útiloka aðrar ástæður, svo sem neysla móðurinnar á áfengi meðan á meðgöngu stóð, fæðingarþyngd barns, aldur móðurinnar og tóbaksnotkun föður.

Um það bil þriðjungur Dana reykir. Fjórða hver verðandi móðir í Danmörku reykir, þrátt fyrir að skaðsemi tóbaks á fóstur sé ýtarlega útskýrð fyrir þeim, segir einn af vísindamönnunum, dr. Charlotte Sondergaard. Dr. Sondergaard er faraldsfræðingur við háskólann í Árhúsum.

Ekki er að fullu vitað hversu algeng magakveisa er. Hún er afar sársaukafull og eins og foreldrar vita er erfitt að vinna bug á henni. Yfirleitt fær barn fyrsta magakveisukastið á fyrstu þremur vikum ævinnar. Kveisunum lýkur yfirleitt um það leyti sem barn nær þriggja til fjögurra mánaða aldri. Hver kveisa getur staðið yfir í margar klukkustundir allt þar til barnið er að niðurlotum komið.

Margar tilgátur eru til um magakveisu. Sumir telja að hún stafi af lofti í meltingarfærunum en aðrir að börnin séu svöng. Enn aðrir eru þess sinnis að börnin hafi drukkið eða borðað yfir sig. Einnig hefur verið bent á að orsökina megi jafnvel rekja til mjólkurofnæmis eða þess að börnin þoli illa kolvetni úr grautum eða aukamjólk.

Sambandið milli magakveisu og reykinga móður er ekki þekkt. Dr. Sondergaard segir að hugsanlega tefji reykingarnar fyrir þroska miðtaugakerfisins eða meltingarfæranna. Dönsku vísindamennirnir segjast ekki hafa fundið nein tengsl milli magakveisu og reykinga móður eftir barnsburð.

The New York Syndicate.