Ólafur Jóhann Ólafsson
Ólafur Jóhann Ólafsson
ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ frumsýnir snemma á næsta ári nýtt leikrit eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, Rakstur, á Smíðaverkstæðinu. Er þetta fyrsta leikrit höfundar sem Þjóðleikhúsið tekur til sýninga.

ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ frumsýnir snemma á næsta ári nýtt leikrit eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, Rakstur, á Smíðaverkstæðinu. Er þetta fyrsta leikrit höfundar sem Þjóðleikhúsið tekur til sýninga. Ekki liggur fyrir hvaða leikarar munu fara með helstu hlutverk en Viðar Eggertsson mun leikstýra verkinu.

"Leikritið gerist á umbrotatímum á rakarastofu í Reykjavík um það leyti sem verið var að fara til tunglsins í fyrsta skipti, sumarið 1969. Þetta voru ekki miklir gósentímar fyrir rakara, menn létu sér óspart vaxa sítt hár, en leikritið segir frá lífi þriggja rakara og húseiganda sem kemur daglega til þeirra í rakstur, eins og menn gerðu gjarnan á þeim tíma. Samhliða rakstrinum fylgjast menn spenntir með framvindu mála úti í geimnum og frétta af því á tvo vegu, annars vegar í gegnum ykkur á Mogganum og hins vegar í gegnum útvarpið. Sjónvarpið var eins og menn muna í sumarfríi þegar þessir atburðir áttu sér stað," segir Ólafur Jóhann.

Gaman og alvara

Hann segir leikritið bland af gamni og alvöru. "Þetta er eins og lífið virðist vera stundum, það skiptast á skin og skúrir. Verkið er grínaktugt en inn á milli gerast hlutir sem reyna á sumar persónurnar."

Ólafur Jóhann skrifaði Rakstur á sama tíma og síðustu skáldsögu sem kom út eftir hann, Slóð fiðrildanna. "Ég var búinn að vinna að skáldsögunni lengi og lagði hana frá mér í nokkrar vikur til að anda einhverju öðru að mér og skrifaði þá Rakstur. Ég lét verkið síðan liggja aðeins hjá mér og það var svo fyrr á þessu ári að við Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri gerðum með okkur samning um að þetta færi þar upp á næsta vetri."

Ólafur Jóhann er sem kunnugt er búsettur í Bandaríkjunum en hyggst koma heim þegar æfingar hefjast, upp úr áramótum, og fylgjast með upphafi æfingaferlisins. "Síðan fer ég út aftur en kem til að fylgjast með lokasprettinum og sjá frumsýninguna."

Rakstur er annað leikrit Ólafs Jóhanns, en fyrsta leikrit hans, Fjögur hjörtu, naut mikilla vinsælda þegar Leikfélag Íslands setti það upp í Loftkastalanum. Þá var leikgerð þeirra Sigurðar Hróarssonar upp úr skáldsögu Ólafs, Sniglaveislunni, sýnd hjá Leikfélagi Akureyrar og Leikfélagi Íslands á liðnum vetri. Hlaut sú sýning einnig góða aðsókn.