Arnór Pétursson
Arnór Pétursson
Ég skora á ríkisstjórn og Alþingi, segir Arnór Pétursson, að bæta og einfalda almannatryggingakerfið.

Á VORDÖGUM samþykkti Alþingi Íslendinga breytingar á lögum um almannatryggingar, sem tóku gildi 1. júlí sl.

Nú verður ekki lengur mismunur á örorkulífeyri ef hjón/sambýlisfólk er 75% öryrkjar. Hvor einstaklingur um sig fær fullan lífeyri en ekki 90% af honum eins og var í eldri lögum.

Nú verða 60% af vinnutekjum öryrkja til skerðingar á tekjutryggingu auk frítekjumarks, en áður komu þær að fullu til skerðingar.

Sérstök heimilisuppbót er felld niður. Hún var 7.409 kr. á mánuði hjá tekjulausum öryrkja og skertist 100% fyrir hverja krónu sem hann hafði í laun eða fékk úr lífeyrissjóði, þ.e. ef öryrkinn hafði 7.410 kr. í lífeyrissjóði féll hún alveg niður. Sérstaka heimilisuppbótin var líka tengd heimilisuppbótinni og gátu því aðeins einstaklingar fengið hana. Í stað hennar kemur nú tekjutryggingarauki sem er 14.062 kr. á mánuði. Þessi 67% tekjuskerðing er nýmæli og kom fyrst inn með þeim lögum sem sett voru í kjölfar "öryrkjadómsins". Hún er algjörlega óviðunandi þegar við bætist 38,76% staðgreiðsla af launum og greiðslum frá Tryggingastofnun. Þá eru jaðaráhrifin svo mikil að engu tali tekur.

Einnig er hún þannig að allir eiga rétt á henni án tillits til búsetu eða hjúskaparstöðu.

Um allar þessar breytingar má segja að um nokkra réttarbót sé að ræða og þá einkum hjá þeim sem minnst höfðu. Mér er hins vegar spurn; skyldi einhver alþingismaður treysta sér til að lifa á 80.200 kr. á mánuði fyrir staðgreiðslu skatta og þurfa í mörgum tilfellum að borga húsaleigu og vera með umtalsverðan lyfja- og lækniskostnað?

Það hryggir mig verulega að eftir rúmlega árs vinnu skuli nefndin sem vann að þessum tillögum ekki hafa séð að almannatryggingakerfið er orðið alltof flókið og erfitt fyrir þá sem þurfa að fá greiðslur frá Tryggingastofnun að skilja það til hlítar. Hvað þá almenningur í landinu. Ég efast um að margir alþingismenn okkar viti hvernig kerfið er og hvaða rétt fólk á. Auk þess þarf dýrt, kostnaðarsamt og flókið tölvukerfi til að halda utan um útreikninga og greiðslu. Kostnaður við það er örugglega margar milljónir á ári og áætlun um gerð nýs tölvukerfis fyrir Tryggingastofnum er upp á tugi milljóna. Allt þetta mætti spara með einföldu markvissu kerfi sem allir skildu. Vandinn er að menn verða að þora að gera slíkar lagabreytingar svo allt sé uppi á borðinu. Hér skortir skilning, vilja og hugrekki ríkisstjórnar og Alþingis.

Í upphafi greinarinnar fjallaði ég um lagabreytingarnar nú í vor, en nú ber svo við að fólk er rétt búið að fá þennan glaðning þegar dynja yfir hækkanir á öllu sem fólk þarf að borga. Ríkið hækkar ýmis þjónustugjöld, þátttaka fólks í lyfjakostnaði eykst. Reykjavíkurborg hækkar fargjöld öryrkja og ellilífeyrisþega í stræó og hjá ferðaþjónustu fatlaðra. Bankarnir hækka vexti og þjónustugjöld svo þessar litlu kjarabætur koma aldrei í vasa þeirra sem lökust hafa kjörin. Vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri gerir. Nú er mál að linni. Fólk verður að búa við mannsæmandi og örugg kjör. Ég skora því enn og aftur á ríkisstjórn og Alþingi að bæta og einfalda almannatryggingakerfið. Hækka bætur þannig að við getum talið að við séum sæmilega siðmenntuð og séum ekki með lakari kjör hjá þessum hópum en er t.d. á Norðurlöndum. Til að friður og sátt geti ríkt um þetta þurfa hagsmunasamtök fólksins að eiga fulltrúa og koma strax að málum þegar farið verður að vinna að þessu mikla réttlætismáli.

Þessi gjörningur og hækkaðar álögur á fólk er sorgleg staðreynd og þessir aðilar hefðu átt að sjá sóma sinn í að setja eftirfarandi auglýsingu í fjölmiðla:

Frá hinu opinbera, frá hinu opinbera.

Öryrkjar og "ellifólk".

Allt í plati!

Við náðum þessu öllu af ykkur aftur.

Ríkið, Reykjavíkurborg og bankarnir.

Höfundur er formaður Sjálfsbjargar.