Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson
Efling íþróttastarfs barna og unglinga og góð aðstaða, segir Sigurður Jónsson, er fjölskyldumál og um leið nauðsynjamál í hverju samfélagi.

ÍSÍ og UMFÍ eiga að sameinast - um að efla íþróttastarf barna og unglinga í landinu.

Í nýlegu viðtali í Mbl. benti Vésteinn Hafsteinsson, landsliðsþjálfari í frjálsum íþróttum, á að það væri liðin tíð að þjálfarar fengjust til starfa í sjálfboðavinnu og íþróttafélögin væru vanmegnug að halda úti þjálfurum. Þetta leiddi síðan til þess að færri stunduðu íþróttir reglulega.

Þarna nálgaðist Vésteinn kjarna málsins sem snýr að íþrótta- og ungmennafélögum sem halda úti barna- og unglingastarfi í íþróttum með öllum þeim forvarnaráhrifum sem slíku starfi fylgir. Það er sífellt erfiðara að fá fólk til starfa í félagsmálum íþróttafélaganna til að halda utan um starfið og ástæðan er sú að tími þess fer í að afla fjár, mest til að halda úti þjálfurum og til þess endist fólk ekki.

Það reynist þó íþróttafélögunum frekar auðvelt að fá fólk til að starfa með hinum ýmsu flokkum að skipulagningu starfsins og taka þátt í starfinu með börnunum og unglingunum og mikið foreldrastarf er unnið á þeim vettvangi sem er mjög dýrmætt.

Það er nauðsynlegt að ÍSÍ og UMFÍ sameinist um að efla íþróttaþjálfunina í félögunum með því að félögin fái bein framlög til þjálfunar barna og unglinga. Íþróttahreyfingin þarf að fá sveitarfélög til samstarfs um þetta efni, benda má á að kennsla og leiðbeinendastörf í félagsmiðstöðvum er greitt af sveitarfélögunum. Nokkur sveitarfélög hafa þegar fetað sig inn á þá braut að taka þátt í þjálfunar- og kennslukostnaði barna og unglinga í íþróttum.

Einnig þurfa ÍSÍ og UMFÍ að fá alþingismenn og ríkisvaldið að þessu verkefni með þeirri áherslu að íþrótta- og félagsstarfið er virkasta forvarnarstarfið sem unnið er gegn ávana- og fíkniefnum. Íþróttastarf er forvarnarstarf.

Efling íþróttastarfs barna og unglinga og góð aðstaða er fjölskyldumál og um leið nauðsynjamál í hverju samfélagi.

Höfundur er formaður Ungmennafélags Selfoss.