Guðjón A. Kristjánsson
Guðjón A. Kristjánsson
Í vor var þingmeirihluti fyrir þeirri leið, segir Guðjón A. Kristjánsson, að stöðva frekari kvótasetningu við stjórn fiskveiða.

SÍÐUSTU misserin hafa verið ansi skrautleg við afgreiðslu og ákvarðanir í málum er snúa að stjórn fiskveiða. Sjávarútvegsráðherra og formaður sjávarútvegsnefndar alþingis skipta um skoðun og rökstuðning með hverju nýju tungli allt sumarið. Sjávarútvegsráðherra bauð ýmsar sættir til sinna þingmanna í smábátamálinu á sl. vori eins og glöggt mátti merkja af þeirri sannfæringu Einars Odds og Gunnars Birgissonar við lok þings í vor að veiðum smábátanna yrði best stjórnað með sóknarstýringu og þorskaflahámarki og víst væri að um það myndi nást sátt. Enda stæðu öll orð og vilji ráðherrans til þess og því mætti treysta. Ég dreg ekki í efa að áðurnefndir þingmenn höfðu þessa sannfæringu og voru tilbúnir í harðan slag um þennan sóknarrétt smábátanna. Vitað var að frekari kvótasetning, sem aðeins þýddi aukið kvótabrask og minni atvinnu í sjávarbyggðum, þjónaði ekki hagsmunum landsbyggðarinnar. Hvað þá þeirra svæða sem hvað verst höfðu orðið úti í kvótaverslun stórgreifanna í aflamarkskerfinu. Kristinn Gunnarsson hefur sagt, líkt og sá sem hér heldur á penna, að frekara kvótabrask samfara aukinni kvótasetningu þjóni ekki hagsmunum sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið. Ég er sannfærður um það að á sl. vori var þingmeirihluti fyrir þeirri leið að stöðva frekari kvótasetningu við stjórn fiskveiða.

Ráðherrum þjónað

Það er mér orðið ljóst nú eftir skrif og orð Einars Odds upp á síðkastið að sá sem undan lét og eyðilagði þar með þá samstöðu sem var fyrir hendi var formaður sjávarútvegsnefndar, 1. þingmaður Vestfjarða, Einar K. Guðfinnsson. Það er umhugsunarefni í hvaða stöðu hann setti samflokksmenn sína og varaformann sjávarútvegsnefndar þegar hann söðlaði um í afstöðu sinni á sl. vori.

Til marks um það hvort ekki var fyrir hendi meirihluti gegn kvótasetningu er best að vitna í orð Einars K. Guðfinnssonar sjálfs er hann segir í grein í Bæjarins besta 23. maí sl.:

,,Ég var þess líka fullviss að eftir að þessi tillaga var komin á dagskrá stjórnarflokkanna var enginn meirihluti lengur (leturbr. undirritaðs) fyrir einhliða frestun á gildistíma laganna."

Sem sagt, áður en Einar K. Guðfinnsson gafst upp var meirihluti fyrir frestun að hans mati. Um það er ég honum sammála en sá meirihluti byggðist einnig á því að hann þyrði að ganga gegn ráðherranum sínum og verja hagsmuni Vestfjarða og annarra sjávarbyggða sem höllum fæti standa eftir afleiðingar kvótabrasksins í aflamarkskerfi stórgreifanna sem engu hafa eirt. Tilfærsla kvótans úr Bolungarvík til Grindavíkur á sínum tíma er eitt skýrasta dæmið þar um. Það sá fyrrum 1. þingmaður Vestfjarða Matthías Bjarnason fyrir, þegar hann orðaði kaup Grindvíkinga í Þorbirni hf. á atvinnurétti Bolvíkinga svo ,,að hann vonaðist til að þeir yrðu Bolvíkingum góðir". Undir því áttu Bolvíkingar allt sitt atvinnulíf. Því miður máttu þeir þola vondan hlut í þeim viðskiptum öllum.

Að hafa holan hljóm

Einar K. Guðfinnsson sagði í viðtali við Morgunblaðið nýverið eftir fund fjögurra Vestfjarðaþingmanna að málflutningur stjórnarandstöðuþingmanna í þessu máli væri með ansi holum hljóm enda hefðu þeir ekki stutt frestun málsins árið áður. Þarna fer Einar Kristinn nokkuð frjálslega með sannleikann. Ég gerði mönnum það ljóst í umræðum á Alþingi 8. maí vorið 2000 þegar frestunartillagan var rædd að ég tæki undir það sem sagði í 1. og 2. grein frumvarpsins um frestun kvótasetningar en legðist gegn því atriði í 3. grein að hægt væri að stækka krókabáta um tugi tonna. Orðrétt sagði ég eftirfarandi á alþingi 8. maí vorið 2000:

,,Ég get lýst því að ég tek undir það sem lagt er til í frumvarpinu í 1. og 2. grein þess. Ég hef hins vegar talsverðan fyrirvara varðandi 3. grein frumvarpsins að því leyti að það sem þar er lagt til er ákveðin ný opnun á því sem kallað er hér krókaaflahlutdeild."

Og jafnframt sagði ég:

,,Afleiðing laganna gæti því hæglega orðið sú næsta haust að í krókakerfinu verði bátar sem eru 20-30 tonn eða þaðan af stærri. Þess vegna hefði ég talið eðlilegt að menn hefðu sett einhverja stærðartakmörkun og þannig hefði verið séð til þess að ekki væri rennt blint í sjóinn með hvað gerðist á næsta fiskveiðiári. Þetta er sú athugasemd sem ég hef við málið."

Það má einnig minna á það að samflutningsmaður minn að tillögunni um frestun á kvótasetningu smábáta á sl. vori, Karl V. Matthíasson alþingismaður, hafði ekki tekið sæti á alþingi þegar málið var afgreitt 8. maí vorið 2000. Hvorugur okkar hafði þess vegna þann hola hljóm sem 1. þingmaður Vestfjarða hefur heyrt að undanförnu. Þar verða menn að líta sjálfum sér nær.

Það er í raun sárt til þess að vita að sú samstaða sem var með Vestfjarðaþingmönnum í þessu máli á sl. vori skyldi klúðrast svo vegna orða og athafna 1. þingmanns Vestfjarða. Að tala um að ekki sé mikið á þingmenn stjórnarandstöðu að treysta og þeir tali með holum hljóm getur ekki dulið það að aðrir stjórnarþingmenn sem vildu styðja frestun fengu ekki tækifæri til þess þar sem formaður sjávarútvegsnefndar kom í veg fyrir að málið yrði afgreitt til annarrar umræðu úr sjávarútvegsnefnd.

Hvaða hótanir urðu til þessara sinnaskipta hans getur hann einn upplýst landsmenn um.

Höfundur er alþingismaður.