Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
Aðferðin felst í að þyrla upp ryki, segir Jón Steinar Gunnlaugsson, til að forðast að ræða það viðfangsefni sem til meðferðar er hverju sinni.

HREINN Loftsson hæstaréttarlögmaður skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum og færði fram rök fyrir þeirri skoðun, að úrskurður Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun færi í nokkrum greinum í bága við lög. Greinin var þörf vegna þess, að þeir sem lýst hafa ánægju með úrskurðinn, hafa auglýst eftir rökum fyrir þessu sjónarmiði, sem m.a. hafði komið fram í viðtali við forsætisráðherra nýlega. Í DV sl. þriðjudag var fjallað um grein Hreins og m.a. talað við Árna Finnsson, formann Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem er andvígur virkjuninni og hafði fagnað úrskurðinum.

Hann vildi greinilega andmæla skoðunum Hreins. Hann gerði það með þeim hætti, að skýra lesendum frá því, að Hreinn væri handgenginn forsætisráðherra og í þokkabót hefði Hreinn sem lögmaður unnið fyrir Landsvirkjun. Í svörunum var hins vegar ekki að finna eitt einasta orð um þau efnislegu sjónarmið, sem Hreinn hafði fært fram fyrir skoðun sinni um ólögmæti úrskurðarins.

Í morgunsjónvarpi á Stöð 2 sl. fimmtudag tjáði annar vinstri maður, Mörður Árnason, sig um grein Hreins. Þar var hið sama uppi á teningnum. Einbert tal um tengsl Hreins við forsætisráðherrann og Landsvirkjun. Ekki eitt einasta orð um rökin.

Þessi dæmi eru lýsandi fyrir þátttöku vinstri manna í umræðum um þjóðfélagsmál. Þegar þeir eiga undir högg að sækja í málefnalegum umræðum, sem segja má að sé regla en ekki undantekning, taka þeir að tala um persónur viðmælenda sinna. Þeir reyna að gera þá tortryggilega með því að skipa þeim á bás og jafnvel að gera lítið úr persónu þeirra. Um leið forðast þeir eins og heitan eldinn að ræða málefnið. Mörg fleiri dæmi mætti nefna um þetta. Aðferðin felst í að þyrla upp ryki til að forðast að ræða það viðfangsefni sem til meðferðar er hverju sinni. Hvaða máli skiptir það fyrir lögmæti eða ólögmæti úrskurðar Skipulagsstofnunar, hvort Hreinn Loftsson hefur unnið fyrir Landsvirkjun eða forsætisráðherra?

Aðferðin er ómerkileg og ekki sæmandi þeim sem vilja láta taka sig alvarlega. Markmið þeirra, sem henni beita, er ekki að leggja eitthvað af mörkum til málefnisins, heldur aðeins að taka þátt í keppni, þar sem sumir eru í þessu liði og aðrir í hinu. Þeir eru líklega sjálfir tilbúnir að segja hvað sem er um hvaða málefni sem er, aðeins ef þeir telja það henta keppninni. Aðferð þeirra lækkar á þeim spjallgengið.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.