FULLTRÚAR Sjálfstæðisflokks hafa lagt til við fræðsluráð Reykjavíkur að ráðið feli Fræðslumiðstöð að ganga til samninga við einkaskólana í Reykjavík með það að markmiði að jafna samkeppnisaðstöðu þeirra gagnvart hinum borgarreknu.

FULLTRÚAR Sjálfstæðisflokks hafa lagt til við fræðsluráð Reykjavíkur að ráðið feli Fræðslumiðstöð að ganga til samninga við einkaskólana í Reykjavík með það að markmiði að jafna samkeppnisaðstöðu þeirra gagnvart hinum borgarreknu. Lagt er til að sérstaklega verði litið á málefni 5 ára barna með það að markmiði að styrkur borgarinnar vegna þeirra barna verði sambærilegur og er til einkareknu leikskólanna.

Tillagan var lögð fram á síðasta fundi Fræðsluráðs en afgreiðslunni var frestað. Sigrún Magnúsdóttir, formaður Fræðsluráðs, óskaði bókað, að af hálfu borgarstjóra og Fræðslumiðstöðvar væru fyrirhugaðar viðræður við Ísaksskóla um málefni skólans, þar á meðal verðandi 5 ára nemendur.

Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi og flutningsmaður tillögunnar, segir að um sé að ræða réttlætismál fyrir foreldra í borginni. "Það ætti ekki að skipta neinu máli fyrir borgina hvort foreldrar fimm ára barna setji börn sín í leikskóla eða einkarekinn grunnskóla," segir Guðlaugur. "Það er gríðarlegur mismunur á niðurgreiðslum til leikskólanna og einkareknu grunnskólanna. Niðurgreiðslur til einkareknu leikskólanna eru um 20 þúsund krónur á mánuði miðað við 8 stunda viðveru 5 sinnum í viku, en 0 krónur til einkareknu grunnskólanna."

Aðspurður segist Guðlaugur ekki munu láta þar við sitja, fari svo að tillagan verði felld. "Málefni einkaskólanna hafa verið rædd allt kjörtímabilið og sömuleiðis hef ég flutt margar tillögur í tengslum við mismunun á milli einkareknu leikskólanna annars vegar og borgarreknu leikskólanna hins vegar. Þetta mál snýst um að gefa foreldrum aukið val og svigrúm til að velja þær leiðir sem þeir telja bestar."