Norski deildarstjórinn Paul Hellandsvik flutti fyrirlestur á ráðstefnu stjórnenda norrænna sjúkrahúsa.
Norski deildarstjórinn Paul Hellandsvik flutti fyrirlestur á ráðstefnu stjórnenda norrænna sjúkrahúsa.
NORSK stjórnvöld munu taka við stjórnun allra sjúkrahúsa í landinu um næstu áramót, en í yfir þrjátíu ár hafa sjúkrahús í Noregi verið í eigu héraðanna.

NORSK stjórnvöld munu taka við stjórnun allra sjúkrahúsa í landinu um næstu áramót, en í yfir þrjátíu ár hafa sjúkrahús í Noregi verið í eigu héraðanna. Landinu verður skipt upp í fimm heilsusvæði og mun heilbrigðisþjónustan innan hvers svæðis fyrir sig verða rekin eins og fyrirtæki. Sjúkrahús og aðrar einingar innan svæðanna verða einnig rekin sem sjálfstæð fyrirtæki.

Paul Hellandsvik, læknir og deildarstjóri í norska heilbrigðisráðuneytinu, fjallaði í gær um þessar breytingar á ráðstefnu stjórnenda sjúkrahúsa á Norðurlöndunum, sem lauk í Reykjavík í gær.

Hellandsvik segir að tilgangurinn með breytingunum sé að nota betur það fé sem sett er í málaflokkinn auk þess að nýta betur tækjabúnað og sérfræðiþekkingu sem er fyrir hendi í landinu. Einnig segir hann að mikilvægt hafi verið að skýra hver beri ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni, í gamla kerfinu hafi ríkið bent á héruðin og héruðin bent á ríkið þegar leitað var eftir því hver bæri ábyrgð á heilbrigðiskerfinu.

"Við höfum sett háar fjárhæðir í heilbrigðiskerfið í Noregi, sérstaklega á síðasta áratug en við höfum ekki fengið þann árangur sem við vonuðumst eftir," segir Hellandsvik. Í fyrirlestri sínum benti hann á að fjárútgjöld til heilbrigðismála hafi vaxið tvöfalt hraðar en aðrir málaflokkar sem heyra undir opinbera stjórnsýslu. Aðgerðum hafi fjölgað, sem og læknum og hjúkrunarfólki, en að þrátt fyrir það styttist biðlistar ekkert og að enn sé skortur á heilbrigðisstarfsfólki. Hann segist telja að með því að færa sjúkrahúsin beint til stjórnvalda verði hægt að sinna rannsóknum betur.

Hellandsvik var formaður nefndar sem ríkisstjórnin skipaði til að skoða hvernig mætti bæta heilbrigðiskerfið. Nefndin skilaði hugmyndum sínum árið 1996 og eru breytingarnar að nokkru leyti byggðar á tillögum hennar.

Sjúkrahúsin keppist um sjúklinga

Hann segir að starfskraftar lækna með mikla sérhæfingu nýtist betur á stærri sjúkrahúsum. Vaxandi sérhæfing læknastéttarinnar hafi aukið þörfina á að sjúkrahús sinni fleira fólki en er í einstökum héruðum í Noregi. Hann segir ekki ólíklegt að deildir á sjúkrahúsum innan hvers svæðis verði sameinaðar, þannig að tæknin og kunnáttan nýtist betur. Hann segir mögulegt að sjúkrahús selji þjónustu sína til annarra sjúkrahúsa. Í dag eru 80 sjúkrahús í Noregi og segist hann ekki telja að þeim muni fækka við breytingarnar þótt hann útiloki það ekki.

Hellandsvik segist ekki telja að eignarhaldið eigi eftir að valda vandamálum, frekar eigi skipulagning fyrirtækjanna eftir að valda vandkvæðum. "Þetta er ný leið til að takast á við heilbrigðisþjónustu. Ef sjúkrahús græðir peninga eitt árið, getur það sett peningana í banka og notað þá á næsta ári. Einnig geta þau tekið lán sem var ekki mögulegt áður. Aðalmálið verður að viðskiptavinurinn, sjúklingurinn, sé ánægður," segir Hellandsvik. Hann segist ekki telja að margir læknar spyrji sig þessarar spurningar í dag en að í nálægri framtíð muni þeir gera það á hverjum degi. Hellandsvik segir að sjúkrahúsin muni að sumu leyti keppast um sjúklinga. "Þau sjúkrahús sem fá marga sjúklinga munu fá miklar tekjur og ástæða þess að þau fá marga sjúklinga er að þau þykja góð." Hellandsvik segir að það að gera hvert svæði að fyrirtæki þýði að sjúkrahúsin muni ekki lengur falla undir opinbera stjórnsýslu. "Sjúkrahús verða sem sjálfstæð fyrirtæki innan heilsusvæðisins, hvort sem þau starfa ein eða í samvinnu við önnur. Fyrirtækin verða lagalega sjálfstæð með ábyrgð gagnvart starfsmönnum sínum. Sjúkrahúsin munu hafa sjálfstæðar stjórnir en verða þó algjörlega í eigu ríkisins. Heilbrigðisráðuneytið mun bera ábyrgð á allri stjórnun en verkefnum verður engu að síður útdeilt í stórum stíl til viðkomandi stofnana," sagði Hellandsvik í fyrirlestri sínum.

Ekki verið að einkavæða heilbrigðiskerfið

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað í Noregi bendir Hellandsvik á að þessar breytingar þýði ekki einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Sjúkrahús muni áfram vera eign ríkisins og stjórn einstakra sjúkrahúsa megi ekki vera í höndum einkaaðila nema norska Stórþingið samþykki slíkt ákvæði. "Norska ríkið ber ábyrgð á skuldbindingum fyrirtækjanna sem þýðir að sjúkrahúsin geta ekki orðið gjaldþrota."

Hellandsvik, sem sjálfur mun stýra einu heilsusvæðinu, segir að hann vonist til að meiri peningar verði settir í málaflokkinn eftir breytingarnar og að sjúklingurinn þurfi ekki að borga meira en hann gerir í dag fyrir læknisþjónustu. Hann segir að þessar breytingar njóti mikils stuðnings meðal almennings í Noregi. Hann segir að fyrir ári hafi verið gerð skoðanakönnun um málið þar sem 73% aðspurðra studdu breytingarnar.