LOÐDÝRABÆNDUR hyggjast gera átak í að laða innlenda og erlenda fjárfesta að greininni og standa vonir til að slíkt muni skapa sterkari grundvöll fyrir loðdýrarækt á Íslandi, en þetta var rætt á aðalfundi Sambands íslenskra loðdýrabænda um síðustu helgi.

LOÐDÝRABÆNDUR hyggjast gera átak í að laða innlenda og erlenda fjárfesta að greininni og standa vonir til að slíkt muni skapa sterkari grundvöll fyrir loðdýrarækt á Íslandi, en þetta var rætt á aðalfundi Sambands íslenskra loðdýrabænda um síðustu helgi. Árni V. Kristjánsson, framkvæmdastjóri sambandsins, segir þetta hafa verið til umræðu meðal þeirra sem vinna við greinina undanfarin tvö ár, en að sögn hans hefur loðdýrarækt á Íslandi átt við fortíðarvanda að glíma.

"Loðdýrabúum fjölgaði gríðarlega á Íslandi á árabilinu 1983 til 1988. Verðhrun fylgdi í kjölfarið og lán sem fengist höfðu til ræktunarinnar voru í íslenskri mynt og vísitölubundin. Þar hlóðst upp vanskilavandi sem að einhverju leyti var tekið á fyrir um það bil tíu árum. Þeir sem héldu áfram loðdýrarækt eftir þessi áföll fengu hins vegar ekki sömu lausn sinna mála og þeir sem hættu. Þar sem við seljum alla framleiðslu okkar á erlendum mörkuðum og erum háðir þeim, finnst okkur svolítið óraunhæft að vera með vísitölutengingu í sambandi við kostnað og teljum að eðlilegra væri að þetta fylgdi kostnaðarhækkunum erlendis. Eins hefur verið mjög skrýtin stefna í gjaldeyrismálum, en sú fastgengisstefna sem hér var við lýði tók ekki mið af því að menn þyrftu meira fyrir útflutninginn í heild."

Aðspurður um hvaða lausn hann sjái á vanda loðdýrabænda segir Árni að viðræður hafi staðið við Byggðastofnun um að koma að málum þeirra bænda sem verst eru staddir. "Ég held að samþykkt hafi verið á stjórnarfundi Byggðastofnunar á fimmtudag að aðstoða þessa bændur. Það verður þá til þess að áframhald á loðdýrarækt í landinu er tryggt. Í dag eru hins vegar einungis 48 loðdýrabú eftir. Þar sem svo fá bú eru eftir munar um hvert og eitt þeirra, hvert bú sem leggur upp laupana hefur áhrif á afkomu og rekstur fóðurstöðvanna og verður til þess að fóðurverð hækkar til þeirra sem eftir eru."

Árni segist telja að miðað við skinnaverð í dag, sé fjárfesting í loðdýrarækt á Íslandi mjög fýsilegur kostur fyrir fjárfesta. Önnur lönd glími nú sum hver við vandkvæði í loðdýrarækt, meðal annars Danmörk, þar sem mun stífari reglur um búnað húsanna gangi í gildi árið 2003, en það verði sennilega til þess að margir danskir bændur hætti búskap. Í Bretlandi sé loðdýrarækt nú bönnuð og í Hollandi séu menn í vandræðum vegna landrýmis.

"Tískan er einnig komin mjög sterkt inn í þetta, eftirspurn hefur stóraukist og ekkert bendir til þess að það breytist á næstu misserum þó auðvitað sé margt sem getur haft áhrif á þetta.

Árni bendir á að danskir loðdýrabændur framleiði loðskinn fyrir 20 milljarða íslenskra króna á ári. Hér á Íslandi má gera ráð fyrir að framleitt sé fyrir um 500 milljónir í ár. Ein ástæða þess að við lítum til erlendra fjárfesta er sú að umræðan um loðdýrarækt hér á Íslandi undanfarin 15 ár hefur verið mjög neikvæð. Þetta kemur eflaust til af því að þegar loðdýrarækt hófst hér var farið hratt af stað og nauðsynleg þróun náði ekki að fylgja. Íslendingar rjúka vanalega í hlutina, en mega stundum fara sér hægar og þetta gildir ekki bara um loðdýrarækt. Hins vegar tel ég að aðstoð frá Byggðastofnun og það að líta eftir innlendum og erlendum fjárfestum geti tvímælalaust orðið greininni til mikilla hagsbóta," segir Árni.