FULLTRÚAR Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNCHR), beittu sér í gær fyrir því að fundin yrði málamiðlun á fundum í Genf í deilunni um örlög 460 flóttamanna sem hafast við á norsku gámaflutningaskipi, Tampa, við Jólaeyju í lögsögu Ástralíu.

FULLTRÚAR Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNCHR), beittu sér í gær fyrir því að fundin yrði málamiðlun á fundum í Genf í deilunni um örlög 460 flóttamanna sem hafast við á norsku gámaflutningaskipi, Tampa, við Jólaeyju í lögsögu Ástralíu. Flestir flóttamannanna eru frá Afganistan. Ástralar neita að leyfa fólkinu að fara í land. Bera þeir við lögum sem ætlað er að stemma stigu við ólöglegum innflytjendum.

Embættismenn frá Ástralíu, Noregi og Indónesíu eru í Genf og verða hugmyndirnar ræddar þar í dag. Helen Clark, forsætisráðherra Nýja Sjálands, sagði koma til greina að landið tæki við hluta hópsins og Norðmenn gefa einnig í skyn að þeir muni taka við nokkrum. Ástralar munu um hríð hafa viljað að tekið yrði tilboði Austur-Tímorbúa um að veita flóttafólkinu landvist. En fulltrúar SÞ, sem stjórna eyríkinu til bráðabirgða, vísuðu hugmyndinni á bug enda er Austur-Tímor eitt af fátækustu löndum heims.

Ætlun UNHCR mun vera að fá Ástrala til að leyfa fólkinu að fara tímabundið í land á Jólaey. Þegar í stað verði kannað hverjir geti átt rétt á hæli sem pólitískir flóttamenn og síðan verði fólkinu fundinn samastaður annars staðar en í Ástralíu.

Arne Rinnan, skipstjóri Tampa, ákvað fyrr í vikunni að verða við bón Ástrala um að bjarga fólkinu sem var á indónesískri ferju á rúmsjó og var hún að sökkva. Norski sendiherrann í Ástralíu, Ove Thorsheim, fór um borð í gær og sagði að ekki virtist ama mikið að fólkinu en ástralski Rauði krossinn hefur þegar sent lyf og önnur hjálpargögn til Tampa með þyrlu.

Um 1.500 manns búa á Jólaeyju sem er um 2.300 km undan norðurströnd Ástralíu. Efndu um 150 þeirra til útifundar í gær til að krefjast þess að flóttafólkið fengi að fara í land.

Genf, Wellington, Jólaeyju. AP, AFP.