ALNÆMI er orðið helsta banameinið í Taílandi og dregur nú fleiri til dauða en slysfarir, hjartasjúkdómar og krabbamein. Kom þetta fram í skýrslu stjórnvalda landsins í gær.

ALNÆMI er orðið helsta banameinið í Taílandi og dregur nú fleiri til dauða en slysfarir, hjartasjúkdómar og krabbamein. Kom þetta fram í skýrslu stjórnvalda landsins í gær.

Surapong Suebwong-lee, aðstoðarheilbrigðisráðherra Taílands, sagði, að þorpshöfðingjar nefndu oftast sem banamein, að hjartað hefði "hætt að slá" og vegna þess hefði verið talið, að hjartasjúkdómar væru óvanalega algengir í Taílandi. "Ný könnun sýnir hins vegar, að það er alnæmið, sem dregur flesta til dauða, einkanlega á landsbyggðinni," sagði Surapong er sat ráðstefnu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á Maldive-eyjum.

Talið er, að ein milljón að minnsta kosti af 60 milljónum landsmanna hafi smitast af alnæmisveirunni og sjúkdómurinn breiddist hratt út í landinu strax fyrir 10 árum. Því er búist við, að dauðsföllum af hans völdum muni fjölga mikið á næstunni.

Kynlífsiðnaðurinn í Taílandi á stóran þátt í útbreiðslu sjúkdómsins. Áætlað er, að allt að ein milljón manna tengist þessari starfsemi og til landsins koma árlega um 10 milljónir ferðamanna.

Bangkok. AFP.