HAGNAÐUR Keflavíkurverktaka nam 120,4 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins samanborið við 16 milljón króna tap á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur félagsins námu 1.

HAGNAÐUR Keflavíkurverktaka nam 120,4 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins samanborið við 16 milljón króna tap á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur félagsins námu 1.025 milljónum króna samanborið við 696 milljónir á sama tíma í fyrra og rekstrargjöldin jukust úr 721 milljón í 839 milljónir króna. Eigið fé félagsins nam 1.424 milljónum króna í lok júní en nam 1.291 milljón króna í árslok 2000.

Í júnílok 2001 var eiginfjárhlutfall félagsins 72,3%, samanborið við 76,18% í lok ársins 2000. Veltufjárhlutfallið var 2,21 samanborið við 2,60 í árslok 2000 og innra virði hlutafjár var 4,52 samanborið við 4,10 í árslok 2000.

Róbert Trausti Árnason, forstjóri Keflavíkurverktaka hf., segir í tilkynningu til Verðbréfaþings að afkoma félagsins sé í takt við áætlanir. "Í áætlunum okkar gerðum við ráð fyrir aukningu á verkefnastöðu utan vallar sem gekk betur eftir en búist var við. Gengisþróun hefur verið okkur hagstæð og hafa tekjur félagsins aukist af verkum innan vallar vegna þessa."