NOKKRIR japanskir vísindamenn segja að tilraunir með mýs gefi til kynna að vilji fólk fá varanlega sólbrúnku eigi það að forðast að nota sólgleraugu.

NOKKRIR japanskir vísindamenn segja að tilraunir með mýs gefi til kynna að vilji fólk fá varanlega sólbrúnku eigi það að forðast að nota sólgleraugu. Ástæðan sé sú að útfjólublátt ljós, sem vönduð gleraugu eiga að hindra, stýri að verulegu leyti því hve mikið af melaníni myndist í húðinni.

Melanín ver húðina fyrir útfjólubláum geislum sem geta orsakað krabbamein en efnið veldur því einnig að fólk "tekur lit". Að sögn Japananna kom í ljós að ef augu músanna voru hulin með álþynnu myndaði sólarbirtan ekki melanín. Hægt var að mæla magnið í eyrunum sem eru ljós að lit og hárlaus. Í músum sem voru alveg óvarðar fyrir ljósinu var melanín-magnið hið sama og í músum sem voru huldar að því undanskildu að augun námu birtuna. Vísindamennirnir ætla að reyna að fá grein um rannsóknirnar birtar í viðurkenndu vísindariti en þá er farið vandlega yfir aðferðir, gögn og túlkun á niðurstöðum.

Tókýó. AFP.