Japanskir slökkviliðsmenn reisa stiga til að bjarga fólki úr brennandi húsinu í skemmtanahverfinu í Tókýó í gær. Sprengingin varð á þriðju hæð og eldurinn barst upp á fjórðu hæð.
Japanskir slökkviliðsmenn reisa stiga til að bjarga fólki úr brennandi húsinu í skemmtanahverfinu í Tókýó í gær. Sprengingin varð á þriðju hæð og eldurinn barst upp á fjórðu hæð.
SPRENGING og eldsvoði í kjölfar hennar varð að minnsta kosti 44 að bana og þrír að auki slösuðust í mahjong-spilasal í Tókýó í gær. Ekki var vitað hvað valdið hefði sprengingunni en rannsókn hófst þegar í gær.

SPRENGING og eldsvoði í kjölfar hennar varð að minnsta kosti 44 að bana og þrír að auki slösuðust í mahjong-spilasal í Tókýó í gær. Ekki var vitað hvað valdið hefði sprengingunni en rannsókn hófst þegar í gær.

Sprengingin varð skömmu eftir miðnætti að þarlendum tíma, um fjögurleytið að íslenskum tíma og var fjöldi fólks á staðnum. Húsið, sem er að mestu gluggalaust, er í þekktri götu í Kabukicho-hverfi þar sem mikið er um ýmiss konar veitingastaði, næturklúbba og vændishús og eru nokkur fyrirtæki í húsinu sem er fjögurra hæða. Stór járnbrautarstöð er skammt frá staðnum.

Spilasalurinn er á þriðju hæð en eldurinn barst upp á fjórðu hæð. Allmargt fólk lokaðist um hríð inni en sendir voru um 100 slökkviliðsbílar á staðinn og tókst að slökkva eldinn á um það bil fimm klukkustundum. Hundruð manna á götum hverfisins fylgdust með björgunaraðgerðunum.

Bjargað af þaki hússins

Að sögn sjónarvotta varð sprenging þegar þjónn opnaði dyr að mahjong-salnum en að öðru leyti var ekki hægt að fullyrða neitt um hvað hefði valdið slysinu. Sjónvarpsstöðin NHK hafði eftir sjónarvotti að líklega hefði verið um gassprengingu að ræða og var rætt um að öryggiseftirlit hefði verið ófullnægjandi á staðnum. Stórt gat, um hálfur metri á breidd og hálfur annar á hæð, kom á útvegg hússins.

"Flest fórnarlömbin eru með slæm brunasár um allan líkamann eftir sprenginguna og eldinn," sagði talsmaður lögreglunnar. Nokkrir þeirra sem slösuðust munu hafa meiðst við að stökkva í örvæntingu út um glugga á húsinu undan eldinum. Slökkviliðsmenn reistu stiga og tókst að bjarga mörgum sem leitað höfðu skjóls á þaki hússins.

Tókýó. AP, AFP.