DANINN Martin Larsen hefur gengið til liðs við Fram, en Larsen kemur frá danska 2. deildar liðinu Holbæk.

DANINN Martin Larsen hefur gengið til liðs við Fram, en Larsen kemur frá danska 2. deildar liðinu Holbæk. Martin er rétthent skytta sem getur þó spilað allar stöður á vellinum, en fyrst og fremst er honum ætlað að fylla það skarð sem Gunnar Berg Viktorsson skildi eftir sig í Fram-liðinu er hann gekk til liðs við Paris SG í vor.

Heimir Ríkharðsson, nýráðinn þjálfari Fram, sagði við Morgunblaðið að auk Danans ættu margir ungir leikmenn eftir að stíga sín fyrstu skref með Fram á komandi vetri. "Við munum spila í vetur með mjög breyttu liði miðað við síðasta tímabil. Margir máttarstólpar eru farnir þannig að ungir strákar koma inn," sagði Heimir.

Kvennalið Fram hefur einnig tekið talsverðum breytingum. Signý Sigurvinsdóttir hefur gengið til liðs við Gróttu/KR, Olga Prokhorova, Marina Zoueva og Björg Tómasdóttir verða ekki með og þær Hafdís Guðjónsdóttir og Hugrún Þorsteinsdóttir eru hættar.