BÆJARRÁÐ Reykjanesbæjar hefur gengið formlega frá breytingum á starfsheitum nokkurra embættismanna í kjölfar breytinga á skipuriti sem ákveðnar voru í sumar.

BÆJARRÁÐ Reykjanesbæjar hefur gengið formlega frá breytingum á starfsheitum nokkurra embættismanna í kjölfar breytinga á skipuriti sem ákveðnar voru í sumar. Fulltrúar minnihlutans lýstu þeirri skoðun sinni að segja ætti forstöðumanni vinnuskóla upp störfum og auglýsa eftir manni í nýtt starf forvarnar- og æskulýðsfulltrúa.

Meirihlutinn, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, samþykktu breytingar á starfsheitum embættismannanna á fundi bæjarráðs í fyrradag. Vísuðu þeir til mismunandi túlkunar meiri- og minnihluta á samþykkt um skipuritið fyrr í sumar og töldu því nauðsynlegt að ítreka skoðun sína á samþykktinni. Hún er sú að Ragnar Örn Pétursson skólastjóri vinnuskóla verði forvarnar- og æskulýðsfulltrúi, Johan D. Jónsson ferðamálafulltrúi verði markaðs- og ferðamálaráðgjafi, Eiríkur Hermansson skólamálastjóri verði fræðslustjóri og að Kolbrún Jónsdóttir fulltrúi heimaþjónustu verði öldrunarfulltrúi.

Forstöðumanni verði sagt upp störfum

Fulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði á móti. Létu þeir bóka að þær breytingar sem verið væri að gera á stöðu forstöðumanns vinnuskóla væru verulegar og í raun væri sá verkþáttur aðeins einn hluti af starfi nýs forvarnar- og æskulýðsfulltrúa. Því væri nauðsynlegt að auglýsa eftir starfsmanni í hið nýja starf. Því fylgdi óhjákvæmilega að segja þurfi forstöðumanni vinnuskólans upp störfum.