"ÞAÐ má deila um það hversu sanngjarnar þessar reglur eru en svona eru þær og við stöndum frammi fyrir orðnum hlut," segir Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um byggðakort sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið út fyrir...

"ÞAÐ má deila um það hversu sanngjarnar þessar reglur eru en svona eru þær og við stöndum frammi fyrir orðnum hlut," segir Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um byggðakort sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið út fyrir Ísland. Þar eru fjögur af fimm sveitarfélögum á Suðurnesjum utan byggðakortsins en það þýðir að ekki er heimilt að veita fyrirtækjum þar byggðastyrki.

Valgerður rifjar það upp að ráðuneytið hafi lagt til að landinu yrði skipt upp í tvö svæði, annars vegar höfuðborgarsvæðið og hins vegar landsbyggðina og að öll landsbyggðin yrði inni á byggðakortinu. Það hafi Eftirlitsstofnunin ekki getað fallist á heldur viljað miða við sveitarfélög. Stofnunin hefði þá reglu að sveitarfélag sem væri með fleiri en 12,5 íbúa á ferkílómetra teldist ekki landsbyggð og íslensk stjórnvöld hafi staðið frammi fyrir því sem orðnum hlut.

Iðnaðarráðherra segist gera sér grein fyrir því að það hefði einhver áhrif í þeim sveitarfélögum á Suðurnesjum sem féllu nú út af byggðakortinu. Hún tók þó fram að stuðningur Byggðastofnunar við verkefni þar væri ekki útilokaður en slíkar fyrirætlanir yrðu að fara til umsagnar Eftirlitsstofnunarinnar. Þá félli sjávarútvegur til dæmis alveg utan þessara reglna.

Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum hafa óskað eftir fundi með ráðherra til að fá svör við ýmsum spurningum um málið og sagðist Valgerður ætla að fara vel yfir málið með þeim. "En Guði sé lof þá er atvinnuástandið hjá þeim ekki alvarlegt," segir hún.

Tekur undir gagnrýni

Ráðuneytið hafði ekki samráð við umrædd sveitarfélög á undirbúningsstigi málsins og hefur það verið gagnrýnt. Valgerður segir að vel megi taka undir þá gagnrýni. "Við gerðum okkar besta til að ná því fram sem við vitum að sveitarfélögin vilja, þótt niðurstaðan hafi orðið þessi. En samráð er alltaf æskilegt," segir Valgerður Sverrisdóttir.