EIGNARHLUTUR Baugs í breska smásölufyrirtækinu Arcadia, sem Baugur keypti af A-Holding, er í árshlutauppgjöri Baugs bókfærður á 11,7 milljarða króna. Markaðsvirði hlutarins er nú um 14 milljarðar króna.

EIGNARHLUTUR Baugs í breska smásölufyrirtækinu Arcadia, sem Baugur keypti af A-Holding, er í árshlutauppgjöri Baugs bókfærður á 11,7 milljarða króna. Markaðsvirði hlutarins er nú um 14 milljarðar króna. A-Holding greiddi á sínum tíma um 9 milljarða króna fyrir bréfin og seldi þau Baugi fyrir 10,3 milljarða. Söluhagnaður A-Holding nam því 1,3 milljörðum króna.

Við kaupin lækkaði viðskiptavild Baugssamstæðunnar um 1,3 milljarða króna sem má rekja til þess að 20% hlutdeild Baugs Holding í eigin fé Arcadia er hærra en sem nemur kaupverði. Afskriftir Baugs vegna viðskiptavildar lækka því um 70 milljónir íslenskra króna á ári. Af þessum sökum er bókfært verð eignarhlutarins í Arcadia 11,7 milljarðar í stað 10,3 milljarða.

Þar til í vor átti Baugur 20% eignarhlutinn í Arcadia í félagi við fjögur önnur félög um samstarfsfélagið A-Holding. Félögin voru fjárfestingarfélögin Gaumur og Gilding auk Íslandsbanka og Kaupþings. Hlutur Baugs í A-Holding nam 13%.

A-Holding leyst upp

Eignarhaldsfélagið Baugur Holding, sem er 100% eigu Baugs, keypti fimmtungshlutinn af A-Holding nú í vor á genginu 1,91 pund og greiddi rúma níu milljarða króna fyrir 87% hlut annarra hluthafa í A-Holding. Greitt var með hlutabréfum í Baugi að markaðsvirði 5,8 milljarðar króna auk þess sem Baugur Holding yfirtók lán A-Holding upp á 3,3 milljarða íslenskra króna. Þegar reiknað er með 13% eignarhlut Baugs nam söluverð bréfanna 10,3 milljörðum króna en markaðsverðmæti hlutarins var um 14 milljarðar króna.

Samkvæmt hlutfallsskiptingu útgefinna hlutabréfa í Baugi vegna kaupanna á Arcadia á aðra eigendur A-Holding hefur hlutur Kaupþings af hinum keyptu 87% verið 41,5%, hlutur Gaums hefur verið 32%, Íslandsbanka 17,7% og Gildingar 8,8%. Hagnaður af sölu bréfanna nam 1,3 milljörðum króna sem þýðir að ríflega 1,1 milljarður kom í hlut meðeigandanna fjögurra. Söluhagnaður Kaupþings eða aðila sem Kaupþing kann að hafa selt hlutina til nam samkvæmt þessu rúmum 469 milljónum króna, söluhagnaður Gaums nam tæpum 362 milljónum, hagnaður Íslandsbanka eða þeirra aðila sem bankinn kann að hafa selt hlutina til nam um 200 milljónum og Gildingar tæpum 100 milljónum króna. Rétt er að geta þess að gengi bréfa í Baugi hefur lækkað frá þessum tíma.

Bonus Stores á 2,9 milljarða

55% eignarhlutur Baugs í Bonus Stores Inc. í Bandaríkjunum er bókfærður í reikningum Baugs á 2,9 milljarða króna og er það verðið sem Baugur greiddi fyrir bandaríska félagið á síðasta ári.

Að sögn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, er verðmæti félagsins í heild á bilinu 300-400 milljónir bandaríkjadala, eða um 30-40 milljarðar króna. Verðmætisáætlanir eru miðaðar við áætlanir um afkomu Bonus Stores Inc. á næsta ári en um 20 milljóna dala hagnaðar er vænst á næsta ári af um 370 milljóna dala veltu. Bonus Stores Inc. er hluti af samstæðu Baugs frá og með 1. júlí sl.